Sameiginlega skólastefna leik-grunn og tónlistarskóla

Sameiginlega skólastefna leik-grunn og tónlistarskóla

Sameiginlega skólastefna leik-grunn og tónlistarskóla sveitarfélagsins hefur nú litið dagsins ljós en í árslok 2013 var ákveðið að móta nýja sameiginlega stefnu fyrir alla skóla Dalvíkurbyggðar. Árið 2011 var ný aðalnámsskrá leik- og grunnskóla samþykkt og í því tilliti þótti eðlilegt að endurskoða skólastefnu sveitarfélagsins.

Óskað var eftir fulltrúum í vinnuhóp til að vinna að sameiginlegri skólastefnu. Hópinn skipuðu; Magnús G. Ólafsson skólastjóri tónlistarskólans, Helga Björt Möller sérfræðingur á fræðslusviði og verkefnisstjóri þessa verkefnis, Auður Helgadóttir, þáverandi formaður fræðsluráðs, Dóróþea Reimarsdóttir verkefnisstjóri sérkennslu á eldra stigi Dalvíkurskóla, Heiðar Davíð Bragson íþróttakennari Dalvíkurskóla, Björn Gunnlaugsson (síðar Gísli Bjarnason) skólastjóri Dalvíkurskóla, Þuríður Sigurðardóttir leikskólakennari Kátakoti, Drífa Þórarinsdóttir skólastjóri Krílakots og Kátakots og Gunnþór E. Gunnþórsson skólastjóri Árskógarskóla. Að verkefninu komu því fulltrúar allra skólastofnana sveitarfélagsins.

Auk þess að funda sérstaklega um verkefnið átti vinnuhópurinn fundi með ýmsum hagsmunahópum svo sem foreldrum, nemendum og starfsfólki. Vinnuhópurinn nýtti sér líka rafræna könnun til þess að kafa dýpra ofaní tiltekin málefni. Þannig var þess gætt að sjónarmið sem flestra kæmu fram í stefnunni. Einnig voru eldri skólastefnur leik- og grunnskóla Dalvíkurbyggðar hafðar til hliðsjónar í vinnunni.

Í desember 2014 var stefnan svo samþykkt af sveitarstjórn.

Stefnan er nú aðgengilega hér á heimasíðunni auk þess sem hún verður borin út á hvert heimili í sveitarfélaginu.

Skólastefna Dalvíkurbyggðar