Fornleifar

Fornleifastofnun Íslands gerði aðalskráningu á fornleifum Dalvíkurbyggð í 5. áföngum á árunum 1999-2003. Fyrstu tveir áfangar fornleifaskráningar í Dalvíkurbyggð voru unnir áður en sveitarfélagið eignaðist loftmyndir á tölvutæku formi og því var kortlagning á ríflega 900 minjastöðum ekki tiltæk á tölvutæku formi. Samhliða vali á sérlega áhugaverðum minjastöðum fór sveitarfélagið því fram á að kortlagðir yrðu þeir minjastaðir sem uppá vantaði svo að allir þekktir minjastaðir í sveitarfélaginu væru tiltækir á stafrænum loftmyndum og nýttust í frekari skiplagsgerð en á þeim tíma stóð vinna við aðalskipulag Dalvíkurbyggðar yfir.

Því verki sem unnið var fyrir Dalvíkurbyggð vegna aðalskipulagsgerðar má því skipta í tvennt.

1. Annars vegar var tekin saman skrá um merka minjastaði í sveitarfélaginu. Í skránni eru dregnar saman upplýsingar um friðlýstar fornleifar í sveitarfélaginu, greint frá ástandi þeirra, staðsetningu og lagt mat á minjagildi þeirra. Til viðbótar hafa verið valdir úr minjastaðir og minjasvæði sem þykja hafa einstakt minjagildi og er gerð grein fyrir þeim með sama hætti og friðlýstu stöðunum.

2. Hins vegar var unnið að frekari kortlagningu fornleifa í sveitarfélaginu. Öllum þeim minjastöðum sem ekki höfðu þegar verið kortlagðir á tölvutæku formi var varpað inn í landshnitakerfi og þeir færðir inn á loftmyndir frá sveitarfélaginu. Auk þess voru eftirfarandi minjar/minjasvæði færð inn á sérkort: a) Allar friðlýstar minjar í sveitarfélaginu b) Um 20 minjastaðir/minjasvæði sem voru valdir úr og þóttu hafa sérstaklega mikið minjagildi c) Merkt voru minjasvæði í öllu sveitarfélaginu þar sem ætla má að minjadreifing sé þéttust innan hverrar jarðar.