Gönguleiðir

Margar góðar gönguleiðir eru í Dalvíkurbyggð enda sveitarfélagið staðsett á Tröllaskaganum sem er stærsta samfellda fjallasvæði landsins. Svæðið er kjörlendi fyrir göngufólk þar sem allir ættu að geta fundið leiðir við sitt hæfi, hvort sem menn vilja ganga á láglendi um Friðland Svarfdæla, klífa fjöll eða ganga fornar þjóðleiðir á milli byggðalaga.

Hérna fyrir neðan eru upplýsingar um 10 styttri gönguleiðir í Dalvíkurbyggð, merktar með skóm eftir erfiðleikastigi. 1 skór er tiltölulega auðveld leið með litlum eða engum ám. 2 skór er miðlungserfið leið þar sem þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðri þjálfun. 3 skór eru nokkuð erfið leið þar sem þátttakendur þurfa að vera í góðri þjálfun. Hólaskóli hefur gefið út göngukort með fjölmörgun gönguleiðum á Tröllaskaga og mælum við með því að þeir sem hyggi á lengri göngur verði sér út um slíkt kort en það er til dæmis hægt að kaupa á Bókasafni Dalvíkurbyggðar.

Vinsamlegast athugið að það getur verið varasamt og á stundum hættulegt að ferðast um íslenskt fjallendi. Veður geta breyst fyrirvaralaust og aðstæður orðið þannig að erfitt er að ráða við þær Öllum ferðalöngum er því ráðlagt að gæta ítrustu varkárni, kynna sér leiðir mjög vel, láta vita af sér áður en haldið er af stað og áætla hvenær göngu er lokið. Einnig er mikilvægt að vera með gott kort og allan útbúnað í lagi. Við mælum með  því að leita leiðsagnar hjá fjallaleiðsögumönnum á svæðinu. Síður sem innihalda upplýsingar fyrir göngufólk eru www.vedur.is www.vegagerdin.is www.safetravel.is

10 gönguleiðin í Dalvíkurbyggð

Þær gönguleiðir sem gefnar eru upp hér fyrir neðan hafa allar verið stikaðar og merktar inn á kort sem er hérna fyrir neðan. Leiðirnar eru litamerktar inn á kortinu og verður vísað til þeirra þannig í textanum.

Kort með 10 gönguleiðum í Dalvíkurbyggð

1. Hánefsstaðareitur - Svört leið

Heildarlengd 1,2 km. Engin hækkun. 1. skór.

Upphafsmaður skógræktar á Hánefsstöðum var eldhuginn og athafnamaðurinn Eiríkur Hjartarson rafmagnsverkfræðingur, sem keypti jörðina og hóf þar skógrækt 1946. Eiríkur, sem einnig er upphafsmaður Grasagarðsins í Laugardal í Reykjavík, var fæddur og uppalinn í Svarfaðardal og átti þar sterkar rætur þótt hann settist að í Reykjavík. Skógræktina á Hánefsstöðum hóf hann með því að reisa mikla girðingu um reitinn og var svo vandað til þess verks að nú, meira en hálfri öld síðar, er sú girðing í fullu gildi. Næsta áratuginn eða svo flutti Eiríkur með sér frá Reykjavík plöntur sem hann og fjölskylda hans gróðursettu á Hánefsstöðum og kennir þar ýmissa grasa. Alls var í hans tíð plantað 94.633 plöntum í þessa 12 ha. lands. Nyrst í skóginum útbjó Eiríkur litla tjörn sem er mjög til prýði. Árið 1965 ánafnaði Eiríkur Skógræktarfélagi Eyfirðinga skóginum og tók félagið þá við umhirðu hans. Göngustígur er um reitinn og myndar hann 1,2 km hring um reitinn. Gangan hefst við bílaplan (N65.92493 W18.54607) sem er syðst í skógarreitnum.

2. Friðlandshringur frá Húsabakka - Appelsínugul leið

Heildarlengd 3 km. Engin hækkun. 1 skór.

Lagt er af stað frá friðlandsskiltinu á Húsabakka (N65 55.451 W18 34.037). Leiðin er öll stikuð og vörðuð með lágum blóma- og fuglaskiltum. Gengið er norður Húsabakkann eftir gömlum malartroðning að gili eða klauf neðst í túninu á Tjörn sem nefnist Lambaklauf. Þá er sveigt til hægri og gengið niður stíg sem liggur að fuglaskoðunarhúsi sem stendur á bökkum Tjarnartjarnar. Áfram er haldið niður malarstíg sunnan tjarnarinnar þar til honum sleppir en þá er stefnan tekin þvert yfir dalbotninn að Svarfaðardalsá. Þarna er tangi út í ána sem eitt sinn var hólmi og nefnist Hánefstaðahólmi. Þar er mikið fuglalíf, einkum eru kríur aðsópsmiklar, en einnig er mikið af öndum og gæsum. Genginn er hringur um hólmann og áfram upp með ánni að girðingu á merkjum Tjarnar og Grundarlands. Nú er aftur gengið þvert yfir dalbotninn með viðkomu á gömlum heygörðum sem þar eru. Þaðan er gott að horfa í kring um sig og rifja upp bæjanöfn og fjallaheitin allt um kring. Frá heygörðunum er stefna tekinn á Húsabakka þar sem hringnum er lokað.

3. Nykurtjörn - Fjólublá leið

Heildarlengd 7.7 km. Hækkun 630 m. 2 skór.

Lagt er af stað frá bænum Steindyrum (N65 53.419 W18 36.964). Gengið er upp gróðursælar hlíðar meðfram Þveránni að Steindyrafossi en leiðin er öll stikuð. Þegar komið er upp á hjalla nokkuð ofan við fossinn er sveigt til norðurs, og gengið undir Bakkabjörgum að  Grundargili en í því rennur lækurinn sem á upptök sín í Nykurtjörn. Gengið er áfram upp með gilinu að Nykurtjörninni (N65 55.232 W18 37.969) sem kúrir undir Litlahnjúk (1160m) og Digrahnjúk (1040m). Þegar haldið er niður aftur er gengin sama leið frá tjörninni og komið var að henni, niður með lækjargilinu alveg þar til komið er niður fyrir hin svokölluðu Hrafnabjörg sem nú blasa við norðan við lækjargilið. Hérna er hægt að halda áfram sömu leið til baka eða fara yfir lækinn. Sé það gert er gengið niður tiltölulega lágréttan  bala neðan undir Hrafnabjörgum sem nefnast Hrafnabjargasléttur. Þegar komið er niður fyrir slétturnar opnast fyrir framan okkur myndarlegt gil sem nefnist Brekkugil. Gengið er niður gilbarminn norðan við gilið (N65 54.969 W18 36.417).  Þegar komið er niður mesta brattan við gilið er stefnan tekin norður og niður hlíðina með stefnu á brúnina ofan við Jarðbrú þar sem nefnist Gerðislækjargil (N65 55.283 W18 35.569). Nú tekur við nokkuð brattari leið og stefna tekin á ýtuslóð sem liggur frá Laugarhlíð, upp að borholu í hlíðinni. Þegar komið er á þennan slóða er auðvelt að fylgja honum niður hlíðina. Göngunni líkur svo við Sundskála Svarfdæla (N65 55.572 W18 34.696). Athugið að sé þessi leið farin er endastaður töluvert frá byrjunarreit. 

4. Mosi Grímudalur - Gul leið

Heildalengd 18,5 km. Hækkun 950 m. 2 skór.

Lagt er af stað frá Dalvíkurkirkju (N65.58.427 W18.32.377) og gengið upp malarveg sem liggur til fjalls. Stikum fylgt upp Moldbrekkur og áfram inn dalinn. Rétt neðan við kofann (N65.58.248 W18.37.624) sem er í miðjum dalnum er farið yfir brú og lagt á brattann uppí Grímudal. Þetta er fallegur og vel gróinn dalur með Grímufjall á vinstri hönd en hægra megin blasa við Bjarkarkolla og Halldór sem er rúmlega 1100m hátt fjall. Í dalnum má sjá leifar af gamalli símalínu  sem lá yfir í Kálfsárdal og áfram til Ólafsfjarðar og var lögð árið 1908. Í botni dalsins er nokkuð brött brekka sem liggur upp í skarð (N65.58.635 W18.40.953) sem er á milli Grímudals og Kálfsárdals. Leiðin liggur því næst til suðurs undir Einstakafjall og niður á Reykjaheiði þar sem Mosi (N65.57.439 W18.41.981), skáli Ferðafélags Svarfdæla, er staðsettur. Til baka er svo haldið beint niður Böggvisstaðadal og komið að kofanum þar sem lagt var af stað upp Grímubrekkur, þegar ferðin til baka er hálfnuð.

5. Bæjarfjall -  Græn leið

Heildarlengd 7,1km. Hækkun 660m. 3 skór.

Lagt er af stað frá Dalvíkurkirkju (N65.58.427 W18.32.377) og gengið upp malarveg sem liggur til fjalls. Þar sem vegurinn greinist er sveigt ti hægri og þar er upphafsskilti leiðarinnar. Gengið yfir brú á Brimnesá og upp með fallegu gljúfri sem þar er. Áfram er gengið eftir vegslóða upp að girðingu. Þegar komið er upp á hálsinn opnast útsýni inn í dalinn sem heitir líkt og margir dalir í Svarfaðardal tveimur nöfnum, annars vegar Upsadalur þeim megin sem við stöndum en Böggvisstaðadalur hinumegin við ána. Þegar komið er í gegnum hliðið liggur stígur til norðurs. Framundan er þá framhlaup sem fallið hefur í fyrndinni og nefnist í daglegu tali Upsi. Gengið er um það bil hálfa leið upp þetta framhlaup en sveigt þar til vinstir og stikum fylgt ská inn í hlíðina þar til komið er í mynni Tungudals (N65.59.129 W18.34.871). Nú er gengið beint upp hlíðina og síðan eftir malarhrygg allar götur upp á fjallið að vörðu sem þar stendur í 774m hæð. Þarna er frábært útsýni yfir Dalvík, inn Svarfaðardal og Skíðadal, inn Eyjafjörð, út yfir Hrísey og allt til Grímseyjar. Gengið sömu leið til baka.

6. Melrakkadalur - Blá leið

Heildarlengd 2 km.  Hækkun 260 m. 1 skór.

Lagt er af stað frá Dalvíkurkirkju (N65.58.427 W18.32.377) og gengið upp malarveg sem liggur til fjalls. Þar sem vegurinn greinist er sveigt til hægri og þar er upphafsskilti leiðarinnar. Gengið á brú yfir Brimnesá og upp með fallegu gljúfri sem þarna er. Áfram er gengið eftir vegslóða upp að girðingu. Þegar komið er upp á hálsinn opnast útsýni inn í dalinn sem heitir eins og svo margir dalir í Svarfaðardal, tveimur nöfnum, annarsvegar Upsadalur þeim megin sem við stöndum en Böggvisstaðadalur hinumegin við ána. Þegar komið er í gegnum hliðið liggur stígur til norðurs. Framundan er þá framhlaup sem fallið hefur í fyrndinni og nefnist í daglegu tali Upsi. Stefnan er tekin á syðribrún framhlaupsskálarinnar, þar birtist slakkinn ofan við framhlaupið sem nefnist Melrakkadalur. Gengið er upp þennan dal að  áfangastað sem er kirkjulaga steinn ofarlega í dalnum. Gengið er sömu leið til baka.

7. Kofi - Rauð leið

Heildarlengd 8,5 km.  Hækkun 270 m. 1 skór.

Lagt er af stað frá Dalvíkurkirkju (N65.58.427 W18.32.377) og gengið upp malarveg sem liggur til fjalls. Þar sem vegurinn greinist er sveigt til hægri og þar er upphafsskilti leiðarinnar. Gengið á brú yfir Brimnesá og upp með fallegu gljúfri sem þarna er. Áfram er gengið eftir vegslóða upp að girðingu. Leiðin er eftir það gengin á gömlum kindagötum í rótum Bæjarfjalls, Selhnjúks og Systrahnjúks. Milli Bæjarfjalls og Selhnjúks birtist Tungudalur og er það fyrsti þverdalurinn sem gengið er fram hjá. Milli Selhnjúks og Systrahnjúks er svo Dýjadalur. Innan við Systrahnjúk er svo Grímudalur en allbrött brekka er frá ánni að mynni dalsins. Rétt neðan við Kofann, sem staðsettur er í miðjum dalnum, er göngubrú yfir Brimnesána. Áður en lagt er af stað til baka niður dalinn hinu megin er tilvalið að á í kofanum og skrifa í gestabókina sem þar er. Leiðin liggur svo niður dalinn  í rótum Böggvisstaðafjalls.  Þessi leið er vel greiðfær en getur verið svolítið blaut fyrri hluta sumars.

8. Friðlandshringur að Hrísatjörn frá Dalvík - Bleik leið

Heilarlengd 5,3 km.  Engin hækkun. 1 skór.

Lagt er af stað frá friðlandsskiltinu sunnan við bílaplanið við Olís á Dalvík. (N65 58.013 W18 31.798) Leiðin er öll stikuð og vörðuð með lágum blóma- og fuglaskiltum. Gengið er í suður, neðan þjóðvegar 82, í áttina að Árgerðisbrúnni. Farið er um þurra lyngmóa og skógrækt meðfram Svarfaðardalsá, undir brúna við Árgerði og upp á hana sunnanfrá. Gengið yfir brúna á gangstétt sunnanmegin og haldið áfram meðfram þjóðveginum að Hrísatjörn. Þegar komið er að Hrísatjörn er sveigt til vinstri og gengið meðfram tjörninni utan í höfða sem stendur þarna uppúr sléttum dalbotninum og nefnist Hrísahöfði. Á Hrísatjörninni er mikið og fjölbreytt fuglalíf. Gengið er áfram meðfram tjörninni allt þar til komið er að litlu fuglaskoðunarhúsi (N65.95695 W18.51763) sem sett var þar niður vorið 2011. Þaðan er haldið aftur af stað upp á kambinn ofan við húsið og gengið í norður að malarvegi sem liggur að malarnámum þar skammt frá. Þegar á veginn er komið þá er hann gengin til baka í áttina á Árgerðisbrú aftur og allar götur að upphafspunkti á ný.

9. Skógreitur í Fólkvangi - Brún leið

Heildarlengd 1,7 km. Engin hækkun. 1 skór.

Trjárækt hófst í reitnum 1962. Reiturinn telst vera innan marka fólkvangs og er því friðlýst útivistarsvæði samkvæmt náttúruverndarlögum. Soffanías Þorkelsson, Vestur – Íslendingur frá Hofsá, gaf fé til plöntukaupa. Ýmis félagasamtök hafa gróðursett í reitinn auk garðyrkjustjóra. Greni, fura, birki, lerki, ösp og víði var plantað í fyrstu en síðustu ár sjaldgæfari plöntum. Aðalgöngustígar voru lagðir árið 1996 og þá var aðgengi að reitnum einnig lagað. Í reitnum eru gönguleiðir, áningarstaðir, borð og bekkir og útigrill. Best er að hefja göngu við hliðið norðan við reitinn (N65.96850 W18.55154), skammt þar frá sem vegurinn liggur upp að skíðasvæði Dalvíkurbyggðar. Nýlega voru lagðir stígar út fyrir reitinn og þar eru nokkrir bekkir til að setjast á.

10. Böggvisstaðafjall - Ljósblá leið

Heildarlengd 8km. Hækkun 778m. 2 skór.

Böggvisstaðafjall má með réttu kalla útivistaparadís Dalvíkinga. Um 300 m2  landsvæði í Böggvisstaðafjalli  er friðlýst sem fólkvangur. Innan fólkvangsins er skíðasvæði Dalvíkurbyggðar og þar eru göngustígar og falleg skógrækt. Þegar gengið er upp á Böggvisstaðafjall er gott að leggja upp frá Dalvíkurkirkju ( N65 58.427 W18 32.377) og ganga upp malarveg er liggur til fjalls. Stikum er fylgt upp Moldbrekkur eftir jeppaslóða.  Þegar upp í dalsmynni Böggvisstaðadals er komið skiptist leiðin, annarsvegar áfram inn dalinn og hinsvegar eftir slóða sem liggur upp hálsinn ofan við skíðasvæðið, og þá leið förum við. Áfram er jeppaslóð fylgt allar götur upp á Lágafjall sem er hjalli beint ofan við skíðasvæðið. Síðasta brekkan upp á Böggvisstaðafjallið er nokkuð brött en vel ling og mosagróinn.  Þegar komið er upp á fjallið er gengið með brúninni að lítilli vörðu sem það steinum (N65 57.960 W18 36.157) og í henni er gestabók sem sjálfsagt er að rita nafn sitt í og njóta svo útsýnisins yfið Dalvík og Svarfaðardal. Til að fá enn betra útsýni er gaman að ganga lengra inn á fjallið, að vörðu (N65 57.720 W18 36.994) sem er í 778 m. hæð og þar er gott útsýni í allar áttir. Gengi er sömu leið til baka.