Umhverfi og Útivist

Útivist

Dalvíkurbyggð er á Tröllaskaganum, einu mikilfenglegasta fjalllendi Íslands. Skaginn er fjöllóttur og ná margir fjallatindar yfir 1200m yfir sjávarmál og nokkrir yfir 1400m. Hæst er Kerling í Svarfaðardal (1214m). Fjölmargir smájöklar eru  í fjöllum og dölum Tröllaskagans en þeirra stærstir eru Gljúfurárjökull og Tungnahryggsjökull. Djúpir dalir skerast inn í fjallendi Tröllaskagans en þeir eru mótar af greftri vatnsfalla og svörfun skriðjökla á jökulskeiðum ísaldar.

Útivistarmöguleikar á Tröllaskaganum eru gríðarmiklir og má þar helst nefna gönguferðir, þyrluskíðun, fjallaskíðamennsku og skíðamennsku. Skaginn er einnig ríkur af öðrum náttúruauðlindum svo sem fjölskrúðugu fugla og plöntulífi og jarðminjum ýmiskonar,  auk þess sem Eyjafjörðurinn er kjörlendi hvalaskoðunar

Í Dalvíkurbyggð eru ýmis útivistarsvæði sem íbúar og gestir svæðisins geta nýtt sér.

Friðland Svarfdæla

Friðland Svarfdælanær yfir allt votlendissvæði í neðri hluta Svarfaðardals frá sjó og fram fyrir Húsabakka. Friðlandið er elsta votlendisfriðland landsins, stofnað 1972 að frumkvæði bænda í Svarfaðardal. Þar verpa yfir 30 tegundir fugla og fleiri tegundir hafa þar viðkomu. Merktir fræðslustígar liggja frá Húsabakka niður í Friðlandið og einnig frá Dalvík umhverfis svokallaðan Hrísahöfða í mynni Svarfaðardals. Fuglaskoðunarhús eru staðsett við Tjarnartjörn og Hrísatjörn.

Fólkvangur í Böggvisstaðafjalli

Fólkvangur í Böggvisstaðafjalli er fjölbreytt útivistarsvæði en þar er að finna skíðasvæði sveitarfélagsins, skógrækt Sveins Ólafssonar og skógreitin Bögg. Búið er að leggja fjölmarga göngustíga um skógræktina og skógreitin Bögg, en í honum er einnig að finna borð og útigrill. Þá er svæðið gott til berja- og sveppatýnslu.

Böggvisstaðasandur

Sandurinn eins og hann er nefndur í daglegur tali heimamanna er strandlengja sem liggur í austur frá Dalvík og tilheyrir Friðlandi Svardæla. Svæðið er vinsælt göngusvæði allan ársins hring og margir sem leggja leið sína eftir sandinum að árósum Svarfaðardalsár. Þaðan er gott útsýni út fjörðinn og yfir Hrísey og Látraströnd.

Hánefsstaðaskógreitur

Hánefsstaðaskógreitur er staðsettur austan megin í Svarfaðardal og er rekinn af Skógræktarfélagi Eyfirðinga. Í skógreitnum er göngustígar, útigrill, snyrtingar og leiktæki. Tilvalinn áningastaður.

Brúarhvammsreitur

Brúarhvammsreitur er staðsettur á Árskógsströnd. Göngustígur er í gegnum reitinn og gaman að koma þar við í fallegu umhverfi.

Gönguleiðir

Gönguleiðir eru fjölmargar í sveitarfélaginu. Tröllaskaginn allur er einn stærsta samfellda fjallasvæði landsins sem sérstöðu sinnar vegna er allt á náttúruminjaskrá. Hér eru há fjöll, og fjallaskörð sem hafa verið mótuð af jöklum í gegnum aldirnar og skilið eftir sig hrikaleg fjöll, grösuga fallega dali, aragrúa smájökla, jökulminjar, einstök fjallavötn og fegurð þar sem kyrrð, orka og töfrar láta engan ósnortinn. Tröllaskagi er þannig óþrjótandi auðlind fyrir þá sem vilja njóta ánægju og útiveru í þessu hrikalega en fjölbreytta landslagi allt árið um kring.  Eitt af því sem gerir svæðið áhugavert er að auðvelt er að fá tilfinningu fyrir því að maður sé einn í óbyggðum þar sem engin mannshönd hefur komið nærri. 

Fjöllin á Tröllaskaga geyma hæstu fjöll Norðurlands. Á utanverðum Tröllaskaga má nefna Dýjafjallshnjúk 1445 m, Kvarnársdalshnjúk 1424m og Heiðingja 1402m.  Meðalhæð fjalla er um 930m eða 3000ft.  Svæðið er því kjörlendi fyrir göngufólk og  má finna gönguleiðir fyrir alla, hvort sem menn vilja ganga á láglendi um Friðland Svarfdæla,  klífa  fjöll eða fornar þjóðleiðir á milli byggðarlaga. Háskólinn á Hólum hefur gefið út mjög góð göngukort yfir fjölmargar gönguleiðir á Tröllaskaga og er hægt að kaupa þau í upplýsingamiðstöðvum á svæðinu. Einnig eru margar stikaðar leiðir á Tröllaskaga og einfaldari kort er hægt að fá hjá upplýsingamiðstöðum fyrir þá sem kjósa frekar styttri gönguleiðir.

Hér má sjá 10 leiðir sem eru í boði

Hér má sjá göngukort af svæðinu

Varúð!
Vinsamlegast athugið að það getur verið varasamt og á stundum hættulegt að ferðast um íslenskt fjallendi. Veður geta breyst fyrirvaralaust og aðstæður orðið þannig að erfitt er að ráða við þær. Öllum ferðalöngum er því ráðlagt að gæta ítrustu varkárni, kynna sér allar leiðir mjög vel, láta vita af sér áður en haldið er af stað og áætla hvenær göngu ætti að vera lokið. Einnig er mikilvægt að vera með gott kort og allan útbúnað í lagi. Við mælum með því að leita leiðsagnar hjá reyndum fjallaleiðsögumönnum og/eða fá ráðleggingar á upplýsingamiðstöðvum á svæðinu.