Atvinnulíf

Dalvíkurbyggð er framsækið og öflugt samfélag í Eyjafirði. Hér býr öflugur hópur einstaklinga sem með dugnaði sínum og elju hafa skapað hér mörg atvinnutækifæri og myndað þannig gróskumikið samfélag fyrir alla. Atvinnulífið byggir á styrkum stoðum, vinnuaflið hefur víðtæka þekkingu, samgöngur eru góðar og grunngerðin sterk.

Atvinnulíf í Dalvíkurbyggð er æði fjölbreytt og eru ýmsar atvinnugreinar stundaðar svo sem landbúnaður, sjávarútvegur, ferðaþjónusta, ýmis iðnaður og önnur þjónusta. Undir liðnum fyrirtæki í Dalvíkurbyggð má finna nánari upplýsingar um þau. 

Í sveitarfélaginu eru sterk iðnfyrirtæki sem hafa skapað sér sérstöðu og eru framarlega á sínu sviði á heimsvísu.

Dalvíkurhöfn er stór og umsvifamikil fiski – og vöruhöfn og skapast ýmis störf í kringum hana. Þaðan siglir Grímseyjarferjan Sæfari og heldur Grímsey, nyrstu byggð Íslands, í tengslum við fastalandið. Á Árskógssandi er einnig ferjuhöfn fyrir Hríseyjarferjuna Sævar sem flytur fólk til og frá Hrísey.

Ferðaþjónusta er framsækin atvinnugrein í sveitarfélaginu. Ferðamenn geta valið hér um margvíslega afþreyingu og gistingu hjá ferðaþjónustuaðilum en frekari upplýsingar má finna hér á vefnum undir "ferðaþjónusta".

Atvinnuleysi hefur í gegnum tíðina verið lítið í Dalvíkurbyggð og ungmenni hafa ekki átt erfitt með að finna sér sumarvinnu hér við fiskvinnslu, iðnað eða þjónustu. Vinnuskóli er starfræktur á sumrin og þar geta unglingar fengið vinnu hluta úr sumrinu við hin ýmsu störf er tengjast umhirðu opinna svæða.

Dalvíkurbyggð er framsækið samfélag þar sem tækifærin liggja!