Aðalskipulag er lögboðin skipulagsáætlun sem nær til eins sveitarfélags og er samþykkt af sveitarstjórn og staðfest af umhverfisráðherra. Hlutverk aðalskipulags samkvæmt skipulags- og byggingarlögum (nr. 73/1997 m.s.b.) er ð samræma og móta langtímastefnu í hinum ýmsu málaflokkum sveitarfélagsins og sýna stefnu sveitarstjórnar um þróun byggðar, landnotkun, landnýtingu, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Aðalskipulagið er fyrst og fremst stjórntæki sem notað er til þess að ná tilteknum markmiðum um þróun sveitarfélagsins.
Aðalskipulagi er ætlað að tryggja að framkvæmdir í sveitarfélaginu verði samkvæmt fyrirframgerðri áætlun sem allir hagsmunaaðilar hafa samþykkt fyrir sitt leyti. Aðalskipulagið er einnig upplýsingabrunnur fyrir íbúa sveitarfélagsins, starfsmenn, kjörna fulltrúa, hönnuði og framkvæmdaaðila.
Auk aðalskipulags er í skipulags- og byggingarlögum gert ráð fyrir svæðisskipulagi og deiliskipulagi. Svæðisskipulag nær yfir tvö eða fleiri sveitarfélög og hlutver þess er að samræma stefnu viðkomandi sveitarfélaga í skipulags- og umhverfismálum. Aðalskipulag er síðan grunnurinn að gerð deiliskipulags fyrir einstök hverfi og byggingarsvæði. Í deiliskipulagi er gerð nákvæm grein fyrir notkun lands, nýtingarhlutfalli reita, húsagerð, tilhögun umferðarkerfis, lóða og byggingarreita.
Í skipulagsgreinargerð er getið um helstu forsendur skipulagsins, sett fram markmið um byggð, umhverfi, atvinnulíf, samgöngur og þjónustukerfi, skilgreindir landnotkunarreitir og sett ákvæði um þá. Aðalskipulagið afmarkar svigrúm til athafna og framkvæmda en setur einnig mörg um nýtingu, t.d. hvernig hagsmunaaðilar geta eða mega nýta sér það svigrúm sem skilgreint er.
Í aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020 felst endurskoðun aðalskipulags Dalvíkur 1992-2012 og aðalskipulags Árskógshrepps 1991-2011. Með staðfestingu nýs aðalskipulags falla eldri aðalskipulagsáætlanir úr gildi.
Greinargerð Aðalskipulags Dalvíkurbyggðar
Skipulagsuppdráttur (mynd)
Skipulagsuppdráttur (pdf)
Skipulagsuppdráttur - Dalvík (mynd)
Skipulagsuppdráttur - Árskógssandur, Hauganes og Laugahlíð (mynd)
Nánari upplýsingar í tölvupósti á netfangið dalvikurbyggd@dalvikurbyggd.is