Framkvæmdasvið

Framkvæmdasvið er nýtt svið sem kom til þegar Umhverfis- og tæknisvið og Veitu- og hafnasvið voru sameinuð í eitt.

Framvæmdasvið annast byggingarmál, skipulagsmál, brunavarnir og brunamál, almannavarnir og umferðarmál auk umhverfismála og náttúruverndarmála skv. lögum og reglugerðum þar um. Stjórn og eftirlit með gæludýra- og búfjárhaldi, framkvæmd fjallskila, afréttarmála, hagagöngu, forðagæslu, eyðingu refa, minka- og vargfugls og sjúkdómavarnir tilheyra þessu sviði ásamt öðrum þeim verkefnum sem umhverfisráði og landbúnaðarráði eru falin með erindisbréfi. 

Framkvæmdasvið heldur utan Hafnasjóð Dalvíkurbyggðar sem á og rekur þrjár hafnir, á Hauganesi, Árskógssandi og á Dalvík. Þær eru bæði atvinnufyrirtæki og uppspretta atvinnutækifæra. Markmið Hafnasjóðs er að veita eins góða þjónustu og unnt er og efla eftir föngum atvinnusköpun í sveitarfélaginu. Viðskiptavinir eru einkum útgerðaraðilar sem reka skip, báta og ferjur, einstaklingar og félög sem leigja húsnæði af hafnasjóði, flutningaskip og aðrir flutningsaðilar.

Framkvæmdasvið annast hlutverk Vatnsveitu Dalvíkurbyggðar sem er að sjá til þess að nægjanlegt gott vatn sé til staðar, á veitusvæði hennar, sem fullnægir þörfum íbúa og fyrirtækjum sem þar starfa. Til þess að tryggja að svo sé er fylgst með gæðum vatnsins, búnaði á brunnsvæðum, bæði dælum og lagnakerfi. Á Vatnsveituna er einnig lögð sú skylda að tryggja að nægjanlegt eldvarnarvatn sé ætíð til staðar á því veitusvæði sem Vatnsveitan þjónar.

Framkvæmdasvið annast einnig hlutverk Hitaveitunnar sem er að sjá til þess að nægjanlegt heitt vatn sé til staðar, á veitusvæði sínu, sem fullnægir þörfum íbúum í Dalvíkurbyggð og fyrirtækjum sem þar starfa.

Hlutverk Fráveitunnar sem einnig fellur undir Framkvæmdasvið er síðan að taka við fráveituvatni og koma því til viðtaka með þeim hætti sem löglegt er hverju sinni. Hér er átt við að þau útræsi sem Fráveita notar uppfylli lög og reglugerðir. Það sama á við um þær rotþrær sem Fráveitan sér um að tæma.