Menningarlíf

Félags og menningarlíf á sér langa og ríka hefð í Dalvíkurbyggð. Þegar haustar taka hjól menningarlífsins að snúast eftir endurnærandi sumarfrí. Kórstjórar blása til æfinga og kynna efnisskrá vetrarins og Leikfélagið fylkir liði sínu fyrir nýtt leikár. Stærri og smærri félög og klúbbar taka til starfa og auglýst eru námskeið í öllu mögulegu sem lýtur að betra og bættara lífi og meiri sköpun. Hinn langi og dimmi norðlægi vetur þjappar fólkinu saman og hvetur til hverskyns félagslífs og samvinnu af öllum toga.

Tónlistarlífið hér hefur lengi staðið með miklum blóma og vakið athygli víða. Starfræktir eru margir kórar og hér er öflugur tónlistarskóli. Leikstarfsemi hefur verið stunduð hér frá fornu fari. Leikfélag Dalvíkur er öflugt áhugaleikfélag sem setur upp eina til tvær leiksýningar á ári hverju. Einnig er hér starfandi Byggðasafnið Hvoll sem og Bókasafn Dalvíkurbyggðar og Héraðsskjalasafn Svarfdæla. Í  Bergi menningarhúsi er að finna ýmsa viðburðir og sýningar sem lífga upp á hversdaginn.

Íbúar Dalvíkurbyggðar kunna svo sannarlega að stytta sér skammdegið með ýmsum uppátækjum. Þeir byrja snemma að huga að jólahaldi og í nóvember eru margir farnir að setja upp jólaljós og jólaskreytingar. Áður en yfir líkur eru öll hús og garðar ljósum prýdd og bærinn eins og skemmtigarður yfir að líta. Um áramótin er sömuleiðis mikið um dýrðir. Á miðnætti á gamlárskvöld heldur hver og ein fjölskylda sína eigin flugeldasýningu og samanlagðar mynda þær slíkt sjónarspil að fátt fær við það jafnast.

Eftir áramótin taka við þorrablót og árshátíðir sem standa fram í febrúar. Eina helgi í marsmánuði er haldinn hinn svokallaði Svarfdælski mars. Þá fer fram heimsmeistarakeppni í spilinu brús sem er vinsælt hér um slóðir en kvöldið eftir er haldinn dansleikur. Þar er dansaður svarfdælskur mars.

Hápunktur skíðavertíðarinnar er um páskana í Böggvisstaðafjalli. Þá flykkist fólk í stórum stíl til Dalvíkur til að njóta útiveru og stunda skíðamennsku. Í maí er jafnan mikið um að vera í menningarlífinu þegar kórarnir ljúka vetrarstarfinu með tónleikum.

Eftir hátíðahöld í tilefni þjóðhátíðar 17. júní gera menn örstutt hlé á opinberu samkomuhaldi yfir hásumarið enda hafa þá flestir öðrum hnöppum að hneppa. Yfir sumartímann fer útivistarfólk hamförum, göngumenn og hestamenn fara um í hópum, golfarar slá kúlur sínar á Arnarholtsvelli, á íþróttavöllunum eru einlægir kappleikir og veiðimenn læðast með ám og vötnum eða sigla út á fjörðinn með sjóstangir sínar.

Þegar kemur fram í ágúst er þó flestum farið að lengja eftir meiri gleðskap og þá halda Dalvíkingar upp á Fiskidaginn mikla. Fiskidagurinn á sér ekki langa sögu en hefur engu að síður skapað sér verðskuldað nafn á Íslandi. Þúsundir hafa undanfarin ár lagt leið sína til Dalvíkur á Fiskidaginn mikla og notið þar gestrisni heimamanna í mat og drykk. Sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtæki á Dalvík taka sig þá saman og bjóða til fiskiveislu ásamt skemmtiatriðum af ýmsum toga. Vafalaust eru þetta einhverjar fjölmennustu veislur sem haldnar eru á Íslandi.

Í september fara menn í berjamó og þá hefst hinn dýrðlegi tími gangna og rétta. Fjárréttir eru á nokkrum stöðum í Dalvíkurbyggð en mest er fjörið jafnan á Tungurétt. Hvergi er þó færra fé á réttum en þar en á móti er gleðskapur þar áberandi mestur, mikill söngur og fólksfjöldi mikill. Þegar fé hefur verið smalað í byrjun október er svo hrossasmölun og stóðrétt. Er það jafnan tilkomumikil sjón að sjá hrossastóðið rekið til réttar og hrossin dregin í dilka.

Hægt og sígandi gengur svo veturinn í garð og dagarnir styttast . Hringrás náttúrunnar hefst á nýjan leik og helst í hendur við hringrás mannlífsins