Svæðisskipulag Eyjafjarðar

Samvinnunefnd um Svæðisskipulag Eyjafjarðar vinnur nú að gerð nýs svæðisskipulags fyrir Eyjafjarðarsvæðið sem nær til eftirtalinna sveitarfélaga:

Grýtubakkahrepps
Svalbarðsstrandarhrepps
Eyjafjarðarsveitar
Akureyrarkaupstaðar
Hörgársveitar
Dalvíkurbyggðar
Fjallabyggðar

Í samræmi við 23. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal svæðisskipulagsnefnd sem vinnur að gerð nýs svæðisskipulags „taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem gerð er grein fyrir hvaða áherslur nefndin hefur við gerð skipulagsins, forsendum þess og fyrirliggjandi stefnu og hvernig kynningu verði háttað gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum”.

Lýsing þessi ásamt fylgiriti (helstu forsendur) liggur nú fyrir og geta þeir sem áhuga hafa kynnt sér hana á heimasíðu viðkomandi sveitarfélags samanber upptalninguna hér að framan. Einnig verða umrædd gögn fyrirliggjandi í prentuðu formi á skrifstofum þeirra. Þeir sem vilja gera athugasemdir við fyrirliggjandi gögn eða koma ábendingum um efni þeirra á framfæri við samvinnunefndina geta hvenær sem er skilað þeim á skrifstofu síns heimasveitarfélags. Þegar endanleg svæðisskipulagstillaga liggur fyrir mun hún kynnt almenningi með formlegum hætti á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt og auglýst með áberandi hætti í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Helstu forsendur 9. september 2013

Umhverfisskýrsla 9. september 2013

Greinargerð 9. september 2013

Nýtt svæðisskipulag fyrir Eyjafjörð sem gildir fyrir tímabilið 2012 – 2024


Lagalegar forsendur

Í 21. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er fjallað um svæðisskipulag, en “svæðisskipulag er skipulagsáætlun tveggja eða fleiri sveitarfélaga þar sem sett er fram sameiginleg stefna þeirra um byggðaþróun og þá þætti landnotkunar sem þörf er talin á að samræma vegna sameiginlegra hagsmuna hlutaðeigandi sveitarfélaga” Enn fremur segir svo í 2. mgr. sömu lagagreinar: “Svæðisskipulag skal taka til svæðis sem myndar heild í landfræðilegu, hagrænu og félagslegu tilliti og getur þannig tekið til heilla landshluta eða annarra stærri heilda”.

Eldri svæðisskipulagsáætlanir

Í eldri skipulagslögum voru einnig ákvæði um svæðisskipulag en fyrstu tilraun að gerð svæðisskipulags fyrir Eyjafjarðarsvæðið má rekja til ársins 1981. Þá var skipuð nefnd til að gera tillögu að svæðisskipulagi fyrir Akureyri og nágrenni. Ári síðar var verkefnið útvíkkað og samvinnunefnd um gerð svæðisskipulagsins skipuð. Eiginleg vinna við skipulagið hófst þó ekki fyrr en í apríl 1984. Tillaga að svæðisskipulagi lá fyrir í árslok 1986 en tillagan var ekki samþykkt af sveitarstjórnarmönnum og fulltrúum samvinnunefndarinnar fyrr en í júní 1990. Að tillögunni stóðu 11 af þáverandi 14 sveitarfélögum við Eyjafjörð. Þau sveitarfélög sem ekki tóku þátt í skipulagsvinnunni voru Ólafsfjörður, Siglufjörður, Grímsey og Hrísey. Umrædd svæðisskipulagstillaga öðlaðist reyndar aldrei formlegt gildi.

Næst hófst vinna við gerð svæðisskipulags fyrir Eyjafjörð 1997 og lauk henni með staðfestingu yfirvalda skipulagsmála á „Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 1998 – 2018“ árið 2002. Öll sveitarfélög við Eyjafjörð, en þau voru 11 að loknum sveitarstjórnarkosningum 2002, áttu aðild að skipulaginu og Hálshreppur í Fnjóskadal að auki.

Ókostir Svæðisskipulags Eyjafjarðar 1998 – 2018

Þegar fyrrnefnd skipulagsáætlun tók gildi voru nokkur sveitarfélögu á svæðinu sem ekki höfðu lokið aðalskipulagsgerð eða aðeins lokið henni fyrir afmarkaðan hluta viðkomandi sveitarfélags. Þegar aðalskipulagsgerð þeirra hófst með markvissum hætti þóttu sum ákvæði svæðisskipulagsins íþyngjandi og hamlandi við mótun sjálfstæðrar stefnu í skipulagsmálum fyrir hvert einstakt sveitarfélag, sérstaklega þegar kom að ákvörðunum um landnotkun. Því ákváðu aðildarsveitarfélögin sameiginlega að nema umrætt skipulag úr gildi og var sú ákvörðun staðfest af skipulagsyfirvöldum síðla árs 2007. Jafnframt var ákveðið að hefja undirbúning að nýrri svæðisskipulagsáætlun fyrir Eyjafjarðarsvæðið er tæki til færri og betur skilgreindra skipulagsþátta en sú eldri.

Undirbúningur að gerð nýs svæðisskipulags fyrir Eyjafjörð

Sérstök nefnd, samvinnunefnd um svæðisskipulag, skipuð tveimur fulltrúum frá hverju aðildarsveitarfélagi svæðisskipulagsins, hóf fljótlega vinnu að undirbúningi áætlanagerðarinnar. Mjög aukinn skriður komst svo á verkið að loknum sveitarstjórnarkosningunum vorið 2010 og með nýjum skipulagslögum samanber kaflann hér að frama um lagalegar forsendur. Hvorutveggja setti þá vinnu sem fram að því hafði verið lögð í verkið í nokkurt uppnám. Bæði var að meirihluti nefndarfulltrúanna var nýskipaður og ný lög kröfðust annarrar aðferðafræði við framsetningu gagna. Sveitarfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu fækkaði úr 8 í 7 eftir fyrrnefndar kosningar með sameiningu Hörgárbyggðar og Arnarnesshrepps í Hörgársveit og um leið fækkaði fulltrúum í nefndinni úr 16 í 14. Í samræmi við skipulagslög frá 2010 breyttist einnig nafn nefndarinnar úr samvinnunefnd um svæðisskipulag í svæðisskipulagsnefnd.

Efnisþættir nýs svæðisskipulags fyrir Eyjafjörð

Svæðisskipulagsnefndin hefur nú lokið störfum við gerð nýs svæðisskipulags fyrir Eyjafjörð. Á fundi nefndarinnar hinn 10. jan. s. l. var tillaga að Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012 – 2024 undirrituð og hún öðlast gildi. Í skipulaginu er sett fram sameiginleg stefna aðildarsveitarfélaganna um byggðaþróun og þá þætti landnotkunar sem talin er þörf á að samræma vegna sameiginlegra hagsmuna sveitarfélaganna. Í skipulaginu eru eftirtaldir efnisþættir til umfjöllunar.

a) Almenn stefna um byggðaþróun b) Samgöngur • Vegamál (jarðgöng). • Hafnarmál (vöruhafnir). • Flugmál (Akureyrarflugvöllur) c) Iðnaðarsvæði. d) Stefna um nýtingu landbúnaðarlands. e) Efnistökusvæði. f) Vatnsverndarsvæði. g) Meðhöndlun úrgangs. h) Strandsvæði Eyjafjarðar, flokkun. i) Veitukerfi, flutningsleiðir raforku.

Efnisþáttum er svo skipað í eftirtalda kafla:

• Byggðaþróun og byggðamynstur. • Landnotkun. • Samgöngu- og þjónustukerfi • Takmörkun á landnotkun.

Sameiginlegir hagsmunir og Svæðisskipulagið sem stjórntæki

Samþykkt Svæðisskipulags Eyjafjarðar er bindandi yfirlýsing sveitarstjórna allra aðildarsveitarfélaganna þ. e. Grýtubakkahrepps, Svalbarðsstrandarhrepps, Eyjafjarðarsveitar, Akureyrarbæjar, Hörgársveitar, Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar um að þau muni fylgja ákvæðum þess við gerð eða breytingar á aðalskipulagi eigin sveitarfélags, enda er Svæðisskipulagið forsenda stefnumótunar í aðalskipulagi. Svæðisskipulagið er því í fáum orðum sagt samkomulag um stefnu um sameiginlega hagsmuni og stjórntæki eða verkfæri til að beita við ákvarðanir um landnotkun og auðlindanýtingu í Eyjafirði.

Þótt svæðisskipulagsnefndin hafi nú lokið störfum við svæðisskipulagsgerðina skal hún starfa áfram og hefur þá m. a. það hlutverk að fylgjast með að allar ákvarðanir aðildarsveitarfélaganna í aðalskipulagsgerð séu í samræmi við ákvæði og stefnumótun Svæðisskipulagsins. Jafnframt að taka ákvarðanir um endurskoðun á Svæðisskipulaginu að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum og fjalla um tillögur einstakra aðildarsveitarfélaga að breytingum á því.

Svæðisskipulag Eyjafjarðar 2012 – 2024 ásamt fylgigögnum á nú að vera aðgengilegt á vefsíðu allra aðildarsveitarfélaganna.