Sagan

Dalvíkurbyggð

Sveitarfélagið Dalvíkurbyggð varð til árið 1998 þegar þrjú sveitarfélög við utanverðan Eyjafjörð; Dalvíkurbær, Svarfaðardalshreppur og Árskógshreppur sameinuðust undir einum hatti. Merki Dalvíkurbyggðar er mynd af þrem fjöllum sem tákna uppruna sveitarfélagsins.

Á Dalvík búa um 1500 manns. Sjávarútvegur, fiskvinnsla og aðrar atvinnugreinar tengdar sjávarnytjum skipa öndvegissess en einnig eru hér öflug iðnaðarfyrirtæki og matvælafyrirtæki sem skapa fjölda fólks atvinnu. Þá hafa margir atvinnu af ýmis konar þjónustu, viðskiptum og verslun. Dalvíkurhöfn er stór og umsvifamikil fiski- og vöruhöfn. Þaðan siglir Grímseyjarferjan Sæfari og heldur Grímsey, nyrstu byggð Íslands, í tengslum við fastalandið.

Á Árskógsströnd standa þorpin Hauganes og Árskógssandur. Í hvoru um sig búa innan við 200 manns. Þar snýst lífið öðru fremur um fiskveiðar og fiskvinnslu. Á Árskógssandi er ferjuhöfn fyrir Hríseyjarferjuna Sævar sem flytur varning og fólk til og frá Hrísey, “Perlu Eyjafjarðar”.

Mjólkurframleiðsla er helsta lífsviðurværi bændanna í Svarfaðardal og á Árskógsströnd en sauðfjárrækt hefur dregist saman. Hestamennska er hér bæði stunduð meðal bænda og bæjarbúa en einnig eru hér hænsnabú, loðdýrabú og fleiri búgreinar þó í smærri stíl sé. 

Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein í sveitarfélaginu og hér hafa verið að byggjast upp öflug fyrirtæki á því sviði.

Sagan

Ekki eru nema rúm 100 ár síðan þéttbýli tók að myndast á Böggvisstaðasandi eins og Dalvíkin var jafnan kölluð. Fram að því var hér einungis að finna hlaðnar sjóbúðir, fátækleg kofatildur og önnur fyrirgengileg mannvirki tengd smábátaútgerð sem bændurnir stunduðu jafnhliða búskapnum. Að loknum róðri drógu þeir báta sína upp í fjöru því ekki var þá um neinar bryggjur eða hafnaraðstöðu að ræða. Fyrstu húsin sem fólk bjó í árið um kring voru torfbæir en fyrsta timburhúsið var byggt á Dalvík árið 1899. Það nefnist Nýibær og stendur enn. Smám saman fjölgaði húsum og árið 1909 fékk Dalvík kauptúnsréttindi. Fyrstu vélbátarnir komu til Dalvíkur árið 1906 og óx þorpið undrafljótt sem einn þýðingarmesti útgerðarbærinn á Norðurlandi. Lengi var þó hafnleysið mjög tilfinnanlegt á Dalvík og var ekki ráðist í gerð varanlegrar hafnar þar fyrr en 1939. Fram að þeim tíma var notast við trébryggjur sem máttu sín lítils þegar náttúran fór hamförum og brim eða hafís sópuðu þeim á haf út.

Á blómatíma Norðurlandssíldarinnar var oft líf og fjör í síldarsöltun á Dalvík og á tímabili var Dalvík þriðja stærsta síldarsöltunarhöfn landsins. Upphaf þéttbýlismyndunar á Árskógsströnd má rekja til síldveiða og síldarsöltunar Norðmanna sem voru hér umsvifamiklir um aldamótin 1900. Dalvík var hluti Svarfaðardalshrepps fram til ársins 1946 en þá var sveitarfélaginu skipt og Dalvík gerð að sjálfstæðu hreppsfélagi. Árið 1974 hlaut bærinn kaupstaðarréttindi og hét þá Dalvíkurbær. Árið 1998 var þessum sveitarfélögum steypt saman ásamt með Árskógshreppi og heitir síðan Dalvíkurbyggð.

Kirkjurnar og hinn svarfdælski byggingarstíll

Kirkjurnar í Svarfaðardal þykja um margt merkilegar. Fyrir það fyrsta voru þær fjórar talsins sem þykir mikið í ekki stærri byggð. Ein þeirra, Upsakirkja, hefur verið rifin að mestu. Hinar kirkjurnar; Vallakirkja , Urðakirkja og Tjarnarkirkja eru enn uppistandandi og vel við haldið. Þær eru allar byggðar með sama lagi sem ekki er að finna á kirkjum annars staðar. Þetta svarfdælska byggingarlag einkennist af því að kirkju”turninn” er lægri en sjálf kirkjan og gefur það kirkjunum sérstakt yfirbragð. Vallakirkja var elst þessara kirkna, byggð árið 1861. Árið 1996 stóðu yfir gagngerar endurbætur á Vallakirkju. Var því verki að mestu lokið og búið að koma flestum kirkjumunum fyrir á sínum stað. Að kveldi fyrsta nóvember kviknaði í kirkjunni og brann hún til kaldra kola. Margir töldu að með því væri lokið sögu Valla sem kirkjustaðar. Sóknarbörn í Vallasókn voru þó ekki af baki dottin. Tókst með þrautseigju að safna fé til endurbyggingar kirkjunnar. Var hún síðan endurbyggð nákvæmlega eins og eldri kirkjan og vígð árið 2000.

Náttúran

Fjalllendi Tröllaskagans er að margra dómi ein mikilfenglegasta útivistarparadís landsins. Svarfaðardalur liggur mitt í þessum fjallaklasa og þaðan liggja fjallvegir til allra átta; yfir í Þorvaldsdal og Hörgárdal, vestur til Skagafjarðar, út í Fljót og yfir í Ólafsfjörð. Hér má finna gönguleiðir við allra hæfi allan ársins hring. Fyrir fjallgöngumenn eru fjallatindar af öllum stærðum og gerðum. Rimar, Stóllinn, Hnjótafjall og Dýjafjallshnjúkur eru tindar sem hver fjallgöngumaður getur verið fullsæmdur af. Fyrir þá sem frekar kjósa fjallvegi og fjallaskörð er af nógu af taka. Um Heljardalsheiði lá um aldir þjóðleiðin milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar. Upp úr botni Skíðadals liggur leiðin upp á Tungnahryggsjökul. Þar eru krossgötur til Skagafjarðar og ofan í Hörgárdal. Þar stendur skáli Ferðafélags Svarfdæla göngulúnum ferðamönnum til afnota. Þorvaldsdalur á Árskógsströnd er fallegur dalur og vinsælt að ganga hann enda á milli og fyrir þá sem frekar kjósa styttri göngutúra má benda á stikaðar gönguleiðir um Friðland Svarfdæla eða léttari fjallgöngur upp að hinum dýrðlegu fjallavötnum Skeiðsvatni og Nykurtjörn.

Jarðfræði

Berggrunnur byggðarlagsins er að mestu gerður úr fornum hraunlögum úr blágrýti sem mynda gríðarþykkan lagskiptan jarðlagastafla. Milli hraunlaganna eru setlög gerð úr gömlum jarðvegi sem safnast hefur á hraunin milli gosa, einnig má sums staðar finna sand- og malarkennd setlög sem ættuð eru frá ám og vötnum. Jarðlagastaflinn hallar lítillega til suðurs. Hann er 10 - 12 milljón ára gamall. Víða standa berggangar nær hornrétt á jarðlögin en þeir eru aðfærsluæðar fornra eldstöðva. Þykkur og mikill berggangur sker sig upp í gegnum fjallið Stólinn, sem stendur fyrir miðjum dal og greinir að Svarfaðardal og Skíðadal. Hálfdánarhurð í Ólafsfjarðarmúla er einnig berggangur. Eftir að eldvirkni lauk á svæðinu fyrir um 10 milljónum ára grófst Eyjafjörður og þverdalir hans ofan í jarðlagastaflann fyrir atbeina vatns og vinda og þegar ísöldin skall á fullkomnuðu jöklar landslagsmótunina. Jökulgarðar frá lokum síðasta kuldaskeiðs, fyrir um 10.000 árum, setja víða svip sinn á landið. Hólsrípillinn rétt norðan við Dalvík er eitt fallegasta dæmið um slíka garða en hann er ruddur upp af jökli sem eitt sinn gekk í sjó úr Karlsárdal. Berghlaupsurðir eru einnig áberandi víða í fjallahlíðum og má þar nefna Upsann ofan Dalvíkur, hólana neðan við Hofsskál í Svarfaðardal og Hvarfið í mynni Skíðadals.

Jarðskjálftinn mikli 1934

Þann 2. júní 1934 er án efa einn örlagaþrungnasti dagur í sögu Dalvíkur. Þá reið mjög harður jarðskjálfti (6,2 stig á Richter) yfir Norðurland. Langharðast kom hann niður á Dalvík og nærsveitum enda æ síðan nefndur Dalvíkurskjálftinn. Skjálftinn jafnaði fjölmörg hús við jörðu og olli skemmdum á nær öllum mannvirkjum á svæðinu. Þrátt fyrir gríðarlega eyðileggingu varð ekki manntjón og allir sluppu óskaddaðir úr hildarleiknum. Stór hluti Dalvíkinga mátti láta fyrirberast í tjöldum og bráðabirgðaskýlum lengi sumars á meðan lagfæringar stóðu yfir. Eftir skjálftann hófst mikið endurreisnarstarf og var fjöldi rammgerðra steinhúsa byggður á Dalvík og nágrenni næstu árin sem leystu af hólmi meira eða minna laskaða torfbæi.

Mannlíf og menning árið um kring

Félags og menningarlíf á sér langa og ríka hefð í Dalvíkurbyggð. Þegar haustar taka hjól menningarlífsins að snúast eftir endurnærandi sumarfrí. Kórstjórar blása til æfinga og kynna efnisskrá vetrarins, Leikfélagið fylkir liði sínu fyrir nýtt leikár. Stærri og smærri félög og klúbbar taka til starfa og auglýst eru námskeið í öllu mögulegu sem lýtur að betra og bættara lífi og meiri sköpun. Hinn langi og dimmi norðlægi vetur þjappar fólkinu saman og hvetur til hverskyns félagslífs og samvinnu af öllum toga.

Tónlistarlífið hér hefur lengi staðið með miklum blóma og vakið athygli víða. Starfræktir eru margir kórar og hér er öflugur tónlistarskóli. Leikstarfsemi hefur verið stunduð hér frá fornu fari. Leikfélag Dalvíkur er öflugt áhugaleikfélag sem setur upp eina til tvær leiksýningar á ári hverju. Íbúar Dalvíkurbyggðar kunna svo sannarlega að stytta sér skammdegið með ýmsum uppátækjum. Þeir byrja snemma að huga að jólahaldi og í nóvember eru margir farnir að setja upp jólaljós og jólaskreytingar. Áður en yfir líkur eru öll hús og garðar ljósum prýdd og bærinn eins og skemmtigarður yfir að líta.

Um áramótin er sömuleiðis mikið um dýrðir. Á miðnætti á gamlárskvöld heldur hver og ein fjölskylda sína eigin flugeldasýningu og samanlagðar mynda þær slíkt sjónarspil að fátt fær við það jafnast.

Eftir áramótin taka við þorrablót og árshátíðir sem standa fram í febrúar. Eina helgi í marsmánuði er haldinn hinn svokallaði Svarfdælski mars. Þá fer fram heimsmeistarakeppni í spilinu brús sem er vinsælt hér um slóðir en kvöldið eftir er haldinn dansleikur. Þar er dansaður svarfdælskur mars.

Hápunktur skíðavertíðarinnar er um páskana í Böggvisstaðafjalli. Þá flykkist fólk í stórum stíl til Dalvíkur til að njóta útiveru og stunda skíðamennsku. Í maí er jafnan mikið um að vera í menningarlífinu þegar kórarnir ljúka vetrarstarfinu með tónleikum.

Eftir hátíðahöld í tilefni þjóðhátíðar 17. júní gera menn örstutt hlé á opinberu samkomuhaldi yfir hásumarið enda hafa þá flestir öðrum hnöppum að hneppa. Yfir sumartímann fer útivistarfólk hamförum, göngumenn og hestamenn fara um í hópum, golfarar slá kúlur sínar á Arnarholtsvelli, á íþróttavöllunum eru einlægir kappleikir og veiðimenn læðast með ám og vötnum eða sigla út á fjörðinn með sjóstangir sínar.

Þegar kemur fram í ágúst er þó flestum farið að lengja eftir meiri gleðskap og þá halda Dalvíkingar upp á Fiskidaginn mikla. Fiskidagurinn á sér ekki langa sögu en hefur engu að síður skapað sér verðskuldað nafn á Íslandi. Þúsundir hafa undanfarin ár lagt leið sína til Dalvíkur á Fiskidaginn mikla og notið þar gestrisni heimamanna í mat og drykk. Sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtæki á Dalvík taka sig þá saman og bjóða til fiskiveislu ásamt skemmtiatriðum af ýmsum toga. Vafalaust eru þetta einhverjar fjölmennustu veislur sem haldnar eru á Íslandi.

Í september fara menn í berjamó og þá hefst hinn dýrðlegi tími gangna og rétta. Fjárréttir eru á nokkrum stöðum í Dalvíkurbyggð en mest er fjörið jafnan á Tungurétt. Hvergi er þó færra fé á réttum en þar en á móti er gleðskapur þar áberandi mestur, mikill söngur og fólksfjöldi mikill. Þegar fé hefur verið smalað í byrjun október er svo hrossasmölun og stóðrétt. Er það jafnan tilkomumikil sjón að sjá hrossastóðið rekið til réttar og hrossin dregin í dilka.

Hægt og sígandi gengur svo veturinn í garð og dagarnir styttast . Hringrás náttúrunnar hefst á nýjan leik og helst í hendur við hringrás mannlífsins.