Vorið góða...

Vorið góða...

Síðustu daga hefur veðrið leikið við okkur og börnin hafa verið mikið úti. Þrátt fyrir lágan hita hefur sólin yljað okkur mikið og er alveg merkilegt hvað sú stóra gula gefur góð áhrif á sálartetrið. Við tökum því fagnandi á móti hverjum sólardeginum sem við fáum. Í myndasafninu okkar má finna myndir frá útiveru síðustu daga.

Veikindi hafa aðeins verið að angra okkur, sértaklega hjá kennurum. Við höfum því lítið verið á Mánakoti til þess að nýta mannauðinn sem við höfum. En við munum vonandi taka á móti Mánakotsbörnum á sinni deild á mánudaginn.

Í gær var síðasti íþróttatíminn hjá báðum árgöngum. Helena setti upp rosalega flotta braut og börnin fóru í Jakahlaup sem var mjög gaman. Í næstu viku byrja svo eldri börnin í sundi, bæði á mánudögum og fimmtudögum. En við höfum nú þegar sent ykkur póst um það allt saman. Hópaskiptinguna er hægt að sjá hjá okkur í forstofunni.

Senn líður að lokum í hópastarfi vetrarins og við taka vorverkin og allt sem vorinu fylgir. Í maí verður mikið um að vera hjá okkur, opið hús (vorhátíð), sveitarferð, útskrift og útskriftarferð elstu barna og margt fleira skemmtilegt, en þetta verður allt auglýst betur síðar þegar nákvæmar tímasetningar verða komnar. Elstu börnin okkar fara að týna tölunni með vorinu en í byrjun júní byrja elstu stelpurnar frá Krílakoti hjá okkur svo barnafjöldinn ætti að haldast nokkuð svipaður. Svo förum við nú að huga að matjurtagarðinum okkar og setja niður kartöflur og grænmeti.

Góða helgi.