Vinnuskólinn sumarið 2011

Líkt og fyrri sumur hefur verið tekin saman skýrsla um störf vinnuskólans fyrir sumarið 2011 en það er Magni Þór Óskarsson, verkstjóri, sem hefur veg og vanda af henni.

Starfshópurinn sumarið 2011 samanstóð af garðyrkjustjóra, verkstjóra, fimm flokkstjórum, eldri hópi og svo nemendum vinnuskólans sem voru allt í allt í kringum 50, en nemendurnir eru fæddir árin 1995-1997. Vinnutíminn var breytilegur eftir aldri starfsmanna.

Flokkstjórar og eldri starfsmenn mættu til vinnu 23. maí til að undirbúa starfsemi sumarsins. Ásamt undirbúningi sátu flokkstjórar og eldri starfsmenn nokkur námskeið, meðal annars voru þeir fræddir um hvernig á að sporna við og sjá út einelti á vinnustað, ásamt framkomu og samskiptum við unglinga. Einnig fengu þau kennslu í Bakverði en allir starfsmenn þurftu að stimpla sig inn og út. Einnig fengu krakkarnir fræðslu um hvernig á að bera sig að við vinnu, líkamsbeitingu og annað slíkt og svo fengu þau fræðslu um hvernig á að lesa út úr launaseðlum.

Vinnuskólinn var settur mánudaginn 6. júní í menningarhúsinu Bergi þar sem Jón garðyrkjustjóri og Magni Þór verkstjóri fóru yfir starfsemi komandi sumars.

Nemendum vinnuskólans var skipt upp í fimm hópa og hafði hver hópur sitt sérsvið, lóðaslátt, slátt á opnun svæðum, slátt á stofnanalóðum, viðhald á leiksvæðum og fl. Allir þessir hópar sáu einnig um að tína rusl á götum byggðarlagsins auk þess sem vinnuskólinn sá um að draga út ruslatunnur á miðvikudagsmorgnum.


Allt sumarið var lögð á það rík áhersla að krakkarnir lærðu rétt vinnubrögð, notuðu verkfærin rétt og bæru virðingu fyrir starfinu og reglum vinnuskólans. Með þessu voru þau undirbúin fyrir störf á almennum vinnumarkaði. Auk þess var ýmislegt skemmtilegt gert s.s. grill, valdagur og fl.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér.