Villa í boðun til íbúa

Villa í boðun til íbúa

Síðastliðinn laugardag vildi það óhapp til að mikill leki kom að frystikerfi í fiskvinnslu Marúlfs að Ránarbraut 10. Hæg austanátt var og lagði óþefinn upp í bæinn norðanverðan. Slökkvilið Dalvíkur var kallað út með sinn búnað til að bregðast við óhöppum af þessu tagi og gekk það vel.

Eftir að hafa metið vetvanginn og dreifingu lyktarmengunar með tilliti til hættu í íbúðarbyggð, var ákveðið að láta 112 senda út boð í alla farsíma á Dalvík, þar sem fólk var beðið um að loka gluggum og hurðum á hýbílum sínum. Ekki var talin bráð hætta fyrir íbúa, svo kæmi til rýmingar, en lykt af ammoniaki er mjög sterk, og óþægileg í miklu magni. Nokkuð var um að íbúar fengu ekki send boð í síma sína, né heldur afboðun á þessari tilkynningu. Haft var samband við 112, en þar á bæ voru starfsmenn að taka í notkun nýtt kerfi, og var frumraunin umrædd tilkynning. Einhver villa var í forritun hjá 112, sem olli því að boðin fóru mjög handahófskent út. Bilun þessi hefur þegar verið lagfærð.

Það skal áréttað að engin bráð hætta var fyrir íbúa Dalvíkur, heldur voru boðin send til að sporna við óþægindum af lykt.

Slökkviliðsstjóri