Vígsla íþróttamiðstöðvar

Laugardaginn 2. október síðastliðinn var Íþróttamiðstöðin vígð að viðstöddu fjölmenni. Rúmlega 500 manns tóku þátt í athöfninni en meðal gesta voru forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, fjármálaráðherra og fleiri þingmenn, fulltrúar UMFÍ og ÍSÍ, bæjarstjórinn á Akureyri, íbúar og íþróttafólk í Dalvíkurbyggð og fjölmargir aðrir.

Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri ræddi um þýðingu mannvirkisins fyrir íbúana og Guðmundur St. Jónsson formaður byggingarnefndar og Björn Friðþjófsson frá verktakanum Tréverki fóru yfir byggingarsöguna hvor frá sinni hlið. Björn afhenti síðan lykla að mannvirkinu og formenn íþróttafélaga og skólastjóri Grunnskóla Dalvíkurbyggðar klipptu á borða og vígðu með því mannvirkið.

Magnús G. Gunnarsson prestur blessaði mannvirkið og Stefán Björnsson flutti ljóðið Hafísinn eftir Matthías Jochumson, en það gerði hann einmitt líka 13 ára gamall þegar gamla íþróttahúsið var vígt árið 1967.  Bríet Brá Bjarnadóttir sem átti 10 ára afmæli þennan dag afhenti hönnuðinum, Fanneyju Hauksdóttur og fulltrúa verktaka, Birni Friðþjófssyni blómvendi fyrir hönd Dalvíkurbyggðar.

Fulltrúar UMFÍ og ÍSÍ fluttu góðar kveðjur frá samtökum sínum og færðu íþróttamiðstöðinni blóm og skildi með hamingjuóskum.
Tónlistarskóli Dalvíkurbyggðar bauð upp á tónlistaratriði bæði fyrir vígslu og meðan á henni stóð, Parkour piltar frá Akureyri sýndu stökk og glæfraatriði.

Forsetinn hélt ræðu og fjallaði meðal annars um dug heimamanna og elju við að koma upp mannvirkjum og halda viðburði sem tekið væri eftir um land allt. Hann þakkaði íbúum í Dalvíkurbyggð fyrir að senda þjóðinni dýrmæt skilaboð um að samtakamáttur fólksins getur á erfiðum tímum hrint í framkvæmd glæsiverki eins og því sem vígt var þennan dag. Ræðu forsetans í heild má lesa hér.

Að lokum færðu 8. bekkingar forsetanum og Gunnari Frímannssyni varaformanni Rauða krossins afrakstur söfnunar í átakinu Göngum til góðs, en forsetinn er verndari samtakanna og verkefnisins.

Að lokinni vígslu fór fram stökk og sprettmót í umsjón frjálsíþróttafólks af svæðinu, þar sem margir sterkustu keppendur landsins tóku þátt. Síðar um daginn kepptu síðan gamlir og nýir körfuknattleiksmenn í hörkustjörnukörfuknattleik!

Sunnudaginn 3. október var opin dagskrá sem fulltrúar íþróttafélaganna sáu um, þar var boðið upp á fótbolta, blak, frjálsar íþróttir, fimleika, körfuknattleik og fleira. Vel var mætt og sjá mátti að eftirvænting unga fólksins var mikil eftir því að fá að komast í nýja salinn.

Undirritaðan langar að þakka öllum þeim sem komu að vígsludeginum svo og opna deginum á sunnudeginum kærlega fyrir aðstoðina.

Myndasafn frá athöfninni birtist síðar.

Bjarni Gunnarsson
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Dalvíkurbyggðar