Viðja sigrar undakeppni fyrir söngkeppni Samfés

Viðja sigrar undakeppni fyrir söngkeppni Samfés

Síðastliðinn mánudag, 12. janúar, var haldin undankeppni fyrir söngkeppni Samfés í Víkurröst. Rúmlega 80 manns mættu og fylgdust með keppninni. Alls voru þrjú atriði sem stigu á svið og óhætt er að segja að þau voru öll frábær. Kynnar voru Amanda Guðrún Bjarnadóttir, Björgvin Máni Friðriksson og Birna Kristín Kristbjarnardóttir.

Fyrsta atriðið sem kom fram var lagið Semjum frið. Lagið heitir upprunalega I won't give up með Jason Mraz en var þýtt yfir á íslensku af tónlistarmanninum Sverri Bergmann. Selma Rut Guðmundsdóttir og Auður Ósk Hilmarsdóttir sungu og með þeim voru félagarnir Einar Örn Arason og Helgi Halldórsson sem spiluðu báðir á gítar. Flutningurinn var miög góður og góð byrjun á skemmtilegu kvöldi.

Næstur á svið var Baldur Smári Sævarsson sem söng lagið Say something eftir A Great Big World og Christina Aguilera. Baldur skilaði laginu frábærlega frá sér og getur verið stoltur af sjálfum sér.

Lokaatriðið reyndist svo vera sigurlagið. Viðja Antonsdóttir söng lagið Halo eftir Beyoncé og skildi salinn eftir agndofa með frábærri frammistöðu. Viðja mun því taka þátt í NorðurOrgi sem fer fram á Hvammstanga þann 30. janúar næstkomandi. Takist henni að komast áfram úr þeirri keppni mun hún syngja í lokakeppninni í Laugardalshöll þann 14. mars.

Dómararnir sem völdu Viðju áfram voru Íris Hauksdóttir söngdíva, Dagur Atlason tónlistarnörd og Aron Birkir Óskarsson, gulldrengur Dalvíkurbyggðar.

Félagsmiðstöðin Týr vill þakka öllum þeim mættu og fylgdust með ásamt þeim sem að lögðu hönd á plóg við að gera þennan viðburð eins flottan og raun bar vitni.