,,Við veitum þjónustu“ - Starfsdagur starfsmanna Dalvíkurbyggðar

,,Við veitum þjónustu“ - Starfsdagur starfsmanna Dalvíkurbyggðar

Síðastliðinn fimmtudag, 2. október, var í fyrsta sinn haldinn sameiginlegur starfsdagur allra starfsmanna Dalvíkurbyggðar. Yfirskrift dagsins var „Við veitum þjónustu“.

Þór Clausen, ráðgjafi hjá Capacent, hafði yfirumsjón með skipulagi. Í upphafi starfsdagsins hélt Þór erindi sem bar nafnið ,, Við sem veitum þjónustu, hvert er hlutverk okkar?“ og gaf þannig tóninn inn í daginn. Í kjölfarið hófst verkefnavinna undir handleiðslu Þórs. Starfsmannahópnum var skipt í 15 hópa og fór hópstjóri fyrir hverjum hópi. Í lokin voru niðurstöður úr hópavinnu kynntar og mátti heyra mikinn samhljóm meðal starfsmanna, bæði um það sem vel er gert en einnig um hvar mögulegt er að gera betur. Þannig myndaðist skemmtileg stemmning í starfsmannahópnum og ýmsar áhugaverðar hugmyndir litu dagsins ljós.

Afrakstur þessarar vinnu verður meðal annars nýttur til áframhaldandi vinnu við verkefnið um Ímynd Dalvíkurbyggðar. Þar er ímynd sveitarfélagsins skoðuð út frá þremur þáttum; Dalvíkurbyggð sem vinnustað, Dalvíkurbyggð sem þjónustuveitanda og Dalvíkurbyggð sem samfélag.

Dagurinn einkenndist af samkennd, samvinnu og síðast en ekki síst mikilli gleði og jákvæðni.

Frábær dagur í alla staði!