Vetrarríkið Dalvíkurbyggð

Vetrarríkið Dalvíkurbyggð

Í Dalvíkurbyggð hefur fallið ofgnótt af snjó á þessum vetri. Snjókoma síðasta sólarhrings hefur enn bætt um betur og er sveitarfélagið nú allt þakið dúnmjúku hvítu teppi svo langt sem augað eygir. Þrátt fyrir að íbúar séu að verða langeygir eftir vetrarlokum gleðjast þeir þegar sólin tekur að skína á snæviþaktar grundir, draga fram skíðin og njóta stundarinnar í faðmi fjallanna. Páskar eru á næsta leiti og margir hugsa sér gott til glóðarinnar að njóta útiveru í þessu mikla vetrarríki, þó vongóðir um að vorið sé á næstu grösum.