Vetrarleikar haldnir með pompi og prakt

Vetrarleikar haldnir með pompi og prakt

Í gær, 5. mars, voru árlegir Vetrarleikar leikskólanna Krílakots og Fagrahvamms haldnir með pompi og prakt. Vetrarleikarnir eru haldnir ár hvert en þá safnast börnin af þessum tveimur leikskólum saman og renna sér í kirkjubrekkunni á þar tilgerðum tækjum. Hefð hefur skapast fyrir því að grunnskólabörnin hjálpi til á þessum degi og að þessu sinni var það 5. bekkur sem fékk þann heiður.

Á hverjum Vetrarleikum er valinn einn heiðursgestur en að þessu sinni var það Felix Jósafatson, lögreglumaður á Dalvík, sem var svo heppinn. Hlutverk heiðursgestsins er að renna sér fyrstu ferðina og fékk Felix dygga aðstoðarmenn sem bæði lánuðu honum brettu og hjálpuðu honum að komast af stað. Þegar Felix var búinn að renna sér eina ferð brunuðu börnin af stað og mátti sjá fjölda sleða, bretta og snjóþota í brekkunni. Að lokum var síðan farið upp í safnaðarheimili þar sem allir fengi kakó og kringlu og viðurkenningu fyrir þáttöku sína.