Velferðarnefnd Alþingis í heimsókn

Velferðarnefnd Alþingis í heimsókn

Velferðarnefnd Alþingis heimsótti Dalvíkurbyggð rétt fyrir síðustu helgi til að kynna sér starfsemi og verkefni fræðslu- og menningarsviðs.

Hildur Ösp Gylfadóttir, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, tók á móti nefndinni í Ráðhúsinu, bauð gesti velkomna og fór yfir nokkur atriði varðandi Dalvíkurbyggð. Hún kynnti áherslur í starfi fræðslu- og menningarsviðs, gildi sviðsins og þær stefnumótandi ákvarðanir sem teknar hafa verið síðustu ár, sérstaklega er varðar málaflokk íþrótta- og æskulýðsmála og Dalvíkurbyggð sem fjölmenningarlegt samfélag. Í framhaldinu kynnti Helga Björt Möller, kennsluráðgjafi, verkefnið Söguskjóður, sem tilnefnt var til nýsköpunarverðlauna í opinberri stjórnsýslu, og Gísli Rúnar Gylfason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, fór yfir verkefnið Heilsueflandi Dalvíkurbyggð.

Góðar umræður urðu um það metnaðarfulla starf sem á sér stað í Dalvíkurbyggð og voru meðlimir velferðarnefndar mjög áhugsamir um þau verkefni sem hafa verið unnin og eru í vinnslu í sveitarfélaginu.  