Vefsíða um ferðaþjónustu á Tröllaskaga

Vefsíða um ferðaþjónustu á Tröllaskaga

visittrollaskagi.is er upplýsingavefsíða um ferðaþjónustu á Tröllaskaga en nú fyrir helgina staðfestu Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð og Ferðatröll samstarf sitt um að koma síðunni í loftið. Undirbúningur og vinna er þegar hafin en stefnt er að því að vefsíðan verði tilbúin í byrjun júní. 

Vefsíðunni visittrollaskagi.is er ætlað að kynna ferðaþjónustu á Tröllaskaga með það að markmiði að sú fjölbreytni og þeir möguleikar sem í svæðinu búa komi betur fram en áður. Með mikilli fjölgun ferðamanna á Íslandi er mikilvægt að koma á framfæri stöðum utan þjóðvegar eitt og hefur Tröllaskagi einstakt tækifæri til vaxtar eftir tilkomu Héðinsfjarðargangna. Mikil uppbygging hefur verið í ferðaþjónustu á Tröllaskaga síðustu ár og eru fjölmörg öflug fyrirtæki í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð.

"Það var kominn tími á meiri samvinnu á þessu svæði. Meiri sýnileiki gagnast öllum og sameinuð komum við sterkar fram og vekjum meiri athygli. Það má þakka bæjarstjórum, kynningarfulltrúum og bæjarstjórnum sveitarfélaganna að verkefnið er komið af stað. Það var vel tekið í erindið þegar það var sent inn til sveitarfélaganna auk þess sem að á bakvið það eru öll helstu fyrirtækin í ferðaþjónustu á Tröllaskaga“ segir Freyr Antonsson formaður Ferðatrölla.