Veðurspá Veðurklúbbsins á Dalbæ fyrir júlímánuð

Veðurklúbburinn á Dalbæ hefur nú sent út veðurspá sína fyrir júlímánuð en klúbburinn kom saman til fundar þann 2. júlí 2013. Farið var lauslega yfir spá fyrir síðasta mánuð og talið ótvírætt að draumum eins klúbbfélagans um kindur hafi verið fyrir því þegar snjóaði í fjöll. Í aðalatriðum voru spámenn sáttir við hversu vel síðasta spá hafi gengið eftir.


Mættir voru níu klúbbfélagar sem byrjuðu á því að kynna sér tunglkomu mánaðarins. Tungl kviknar mánudaginn 8. júlí n.k. kl. 7:14 í austri. Vænta má að N og NV- áttir verði óþarflega ríkjandi fram að þeim tíma, en upp úr tunglkomu megi einkum búast við
S og SV- áttum með hlýindum. Til viðbótar við veðurhorfur telja spámenn að fiskirí muni glæðast til muna í júlí og að berjaspretta verði með afbrigðum góð þegar líður á sumarið.