Veðurspá Veðurklúbbsins á Dalbæ fyrir febrúar

Þriðjudaginn 2. febrúar 2016 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar. Fundurinn hófst kl. 13:58. Fundarmenn voru 14 talsins og þar af nokkrir nýir félagar, sem nutu stuðnings frá reyndari félögum.

Fundarmenn voru sáttir við hvernig síðasta spá gekk í meginatriðum eftir þó svo veðrabrigði væru heldur seinna en ráð var fyrir gert .

Nýtt tungl kviknar mánudaginn 8. febrúar kl. 14:39 í suðri. Mánudagstungl geta bent til góðs og slæms tíðarfars, samkvæmt kenningum Ríkarðs bónda í Bakkagerðum. Að þessu sinni benda draumar klúbbfélaga fremur til þess verra í þessum efnum. Því má reikna með meiri snjókomu en var í janúar. Duldar vísbendingar benda til óvæntra atburða í lok mánaðarins, en ekkert verður frekar upplýst um það og áhugasamir látnir um að fylgjast með þessum væntingum. Að öðru leyti má búast við fremur rysjóttri tíð í mánuðinum þó svo að ekki verði um neinar frosthörkur að ræða.

Veðurvísa mánaðarins .

Febrúar á fannir,

þá læðist geislinn lágt

Í mars blæs oft biturt,

en birtir smátt og smátt

Með góðri kveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ