Veðurspá Veðurklúbbsins á Dalbæ fyrir ágústmánuð

Þriðjudaginn 4. ágúst 2015 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar.

Ekki þurfti að velta lengi vöngum yfir spágildi síðustu veðurspár, þar sem engin spá var gefin út fyrir júlímánuð. Hefði svo verið gert þá höfðu klúbbfélagar tilfinningu fyrir leiðindaveðri í júlímánuði, í byrjun þess mánaðar, þannig að veðurfarið kom þeim ekki á óvart.

Eins og fólk hefur fundið fyrir þá hefur andað köldu að norðan vegna hæða sem legið hafa yfir Grænlandi en vonir eru nú bundnar við að með nýrri tunglkomu, sem verður föstudaginn 14. ágúst þegar tungl kviknar í SV kl. 14:54, muni vindáttir snúast í suðvestlægar og hitastig fara hækkandi. Gangi þetta eftir eru líkur á að þetta muni haldast í nokkurn tíma. Stutt er í að hundadögum ljúki og höfuðdagur framundan sem styður þá kenningu að veðurfar muni breytast um þessar mundir. Ekki ólíklegt að við fáum sumarauka.

Með fylgir veðurvísa:

Í ágúst slá menn engið,

og börnin tína ber.

Í september fer söngfugl

og sumardýrðin þver.

Með góðri fiskidagskveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ