Veðurspá maímánaðar frá Veðurklúbbnum á Dalbæ

Þriðjudaginn 3. maí 2016 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar. Fundarmenn voru 17 talsins, sem er óvenju fjölmennt og því meira lýðræði í veðurvæntingum eins og nú er haft í hámælum í þjóðmálaumræðunni. Við athugun á síðustu veðurspá og veðurfarssögu síðasta mánaðar voru klúbbfélagar almennt þeirrar skoðunar að veðurspáin hefði verið óvenju nákvæm og góð.
Nýtt tungl kviknar föstudaginn 6. maí í vestri kl. 19:30. Það var álit fundarmanna að það ætti eftir að koma eitt leiðindaveðurskot í maí. Framan af mánuði má búast við fremar köldu veðri. Veður mun heldur skána eftir Hvítasunnu en ekki verða umtalsverð hlýindi. Sleppur þó að mestu leyti við frostnætur. Vindáttir verða norðlægar framan af mánuði og síðan breytilegar áttir. Reiknað er með að það dragist tölvert að veður hlýni eitthvað að ráði, en samkvæmt venju lætur veðurklúbburinn nægja að spá fyrir einn mánuð í einu þó svo að nokkrir klúbbfélagar séu komnir með hugmyndir um veðurfar síðar á árinu þá vill klúbburinn ekki upplýsa nánar um það fyrr en í júní og getur fólk beðið spennt eftir þeim spádómum.


Veðurvísa apríl og maí mánaðar.

Í apríl sumrar aftur
og ómar söngur nýr.
Í maí flytur fólkið,
og fuglinn hreiður býr.

Með góðri kveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ