Veðurspá júnímánaðar frá Veðurklúbbnum á Dalbæ

Þriðjudaginn 2. júní 2015 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar. Farið var yfir spá klúbbsins fyrir maímánuð og voru fundarmenn hæst ánægðir hvernig tekist hafði til við síðustu spá þó svo að enginn hafi óskað eftir þeim fimbulkulda sem var í mánuðinum, enda komið fram að hitastig er langt undir meðallagi þessa árstíma. Hvað varðar veður í júní þá eru fundarmenn á því að áfram verði fremur kalt og ekki fari að hlýna neitt að ráði fyrr en kemur fram yfir miðjan mánuð. Nýtt tungl kviknar 16. júní í S kl. 14:05. Draumar og aðrar vísbendingar klúbbfélaga benda til þess að sumarið verði fremur kalt, en við leyfum júnímánuði að líða áður en klúbburinn gefi frekari upplýsingar um veðurfar í sumar. Búast má við smá glennum af og til og reikna má með að fólk geti orðið “heimabrúnt” ef það er fljótt að taka lit í sólinni.

Með fylgir veðurvísa:

“Í júní sest ei sólin,

og brosir blómafjöld.

Í júli er baggi bundinn

og borðuð töðugjöld.”


Með sumarkveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ