Veðurspá frá Veðurklúbbnum á Dalbæ

Veðurklúbburinn á Dalbæ hefur nú gefið út septemberspá sína en klúbbfélagar funduðu þriðjudaginn 1. september. Farið var yfir forspárgildi ágústspárinnar og voru fundarmenn vel sáttir við þá útkomu.

Nýtt tungl kviknar 13. sept. kl. 06:41 í austri og er það sunnudagstungl. Innkoma tunglisins á þessum tíma og stað segir klúbbfélögum að veður muni verða gott í september. Svipað veður og var í ágúst. Þó heldur minni úrkoma og jafnvel hærra hitastig af og til þó svo að það gráni í fjallatoppa.

Góð stemming var á fundinum og eru klúbbfélagar bjartsýnir á milt og gott veður fram eftir hausti. Draumar og aðrar sýnir styðja þessar væntingar, en nákvæm veðurspá er ekki gefinn út nema fyrir einn mánuð í senn.

Með fylgir veðurvísa:

“ Í ágúst slá menn engið,

og börnin tína ber.

Í september fer söngfugl

og sumardýrðin þver.

Með góðri kveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ