Veðurspá desembermánaðar frá Veðurklúbbnum á Dalbæ

Þriðjudaginn 2. desember 2014 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar til að huga að og ráðslaga með veðurhorfur í desember og þá sérstaklega veðurfar um jól og áramót.

Farið var yfir veðurspá síðasta mánaðar og voru fundarmenn mjög sáttir við síðustu spá enda gekk hún í öllum meginatriðum eftir. Búast má við að veður verði mjög svipað og í nóvember, hlýtt miðað við árstíma og úrkomulítið. Nýtt tungl mun kvikna 22. desember í norðri kl. 01:36 og er það mánudagstungl.

Hvað varðar jólaveðrið þá reikna klúbbfélagar með að jólin verði hvorki hvít né rauð. Frekar mætti segja að búast megi við gráum jólum þar sem föl fer og kemur á víxl. Um áramót gætu orðið smá veðrabrigði sem þó ættu alls ekki að spilla uppskotum flugelda eða annarra púðurkerlinga.

Klúbbfélagar senda öllum bestu jóla- og áramótakveðjur með þakklæti fyrir þá athygli sem spá þeirra hefur vakið.

Veðurklúbburinn á Dalbæ