Veðurspá desembermánaðar frá Veðurklúbbnum á Dalbæ

Veðurklúbburinn á Dalbæ hefur nú sent frá sér veðurspá fyrir desembermánuð 2013. Fundur var haldinn í klúbbnum 3. des. 2013, sem hófst kl. 14:00. Til fundar mættu 11 félagar.

Farið var yfir nóvemberspána og voru fundarmenn sáttir við hvernig hún hefði gengið eftir miðað við spá mánaðarins. Desemberveður verður með svipuðu móti og var í nóvember, þá munu verða heldur meiri veðrabrigði og áttir meira af norðri.
Tungl kviknaði 3. des. kl. 00:22 í norðri. Í íslenskum þjóðháttum segir: “ Þá hefir og verið sagt, að oftast viðri hvert tungl eftir því, sem viðrað hefir næsta fimmtudag á undan því, er það kviknaði og næsta mánudag á eftir.” Þetta er talið eiga við tungl sem kviknar milli fimmtudags og mánudags. Næst kviknar tungl í SA 1. janúar kl. 11:14. Tilfinning félaga er að veður um jól og áramót verði fallegt og gott.

Veðurklúbbsfélagar senda jóla- og nýjárskveðjur til ykkar allra.

Dalbæ 6. desember 2013
Veðurklúbburinn á Dalbæ.