Veðurspá ágústmánaðar frá Veðurklúbbnum á Dalbæ

Þriðjudaginn 2. ágúst 2016 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar. Fundurinn hófst kl. 14:00. Fundarmenn voru 20 talsins, enda mikilvægt að vanda til veðurspár þar sem “Fiskidagurinn mikli” var að nálgst.

Að venju, og svo sem við var að búast, hafði síðasta veðurspá klúbbsins gengið ágætlega eftir og þó svo að klúbburinn hafi sleppt því að spá fyrir júlímánuð vegna sumarfría og ýmissa anna, hafði veður í þeim mánuði verið með ágætum. Þó svo að útlit og horfur hafi ekki verið sem bestar fyrir veður á Fiskidag þá voru klúbbfélaga á einu málu um að þann dag yrði ágætt veður, sem hentaði prýðilega til útihátíðahalda.
Nýtt tungl kviknaði eimitt þennan dag, þ.e. 2. ágúst í NV. kl. 20:45. Veðurhorfur fyrir mánuðinn eru svipaðar og verið hefur. Þó voru klúbbfélagar á báðum áttum með ríkjandi vindáttir og samkomulag var um að gera ráð fyir að vindur blésu líklega úr báðum áttum bæði suðlægar og norðlægar áttir, en þó ekki teljandi á sama tíma. Svo sem fram kom í spá fyrir júnímánuð er berjatíð með miklum ágætum.


Veðurvísa ágúst og september mánaðar.

Í ágúst slá menn engi
og börnin tína ber.
Í september fer söngfugl
og sumardýrðin þver.


Með Fiskidagskveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ