Veðurklúbburinn á Dalbæ með veðurspá aprílmánaðar

Þriðjudaginn 5. apríl 2016 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar. Farið var yfir spá fyrir síðasta mánuð en þá reiknuðu menn með stuttum veðurhvelli sem gekk eftir, þó svo að hans gætti ekki verulega hér. Ekkert var getið um páskaveður, sem kom og fór, en það kom engum klúbbfélaga á óvart hvernig veðrið var þá. Samandregið má því segja að spádómur síðasta mánaðar hafi gengið eftir í öllum meginatriðum.
Nýtt tungl kviknar fimmtudaginn 7. apríl í suðaustri kl. 11:24. Aprílmánuður gæti því orðið umhleypingasamur og búast má við tveimur veðurskotum í mánuðinum, sem standa stutt. Vindáttin verður óstöðug en þó óþarflega mikið um norðan- og norðaustanáttir.


Rifjuð var upp eftirfarandi veðurvísa og geta lesendur dundað sér við að ráða í meiningu hennar.

Ef hún Góa öll er góð,
að því gæti mengi.
Þá mun hennar, hennar jóð
herða á mjóa strengi.

Veðurvísa mánaðarins .

Í apríl sumrar aftur
og ómar söngur nýr.
Í maí flytur fólkið,
og fuglinn hreiður býr.

Með góðri kveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ