Úthlutun verkefnastyrkja Menningarráðs

Úthlutun verkefnastyrkja Menningarráðs

Fimmtudaginn 10 apríl úthlutaði Menningarráð Eyþings verkefnastyrkjum til menningarstarfs á starfssvæði Eyþings. Er þetta önnur úthlutun ráðsins og fór athöfnin fram í Tónlistarhúsinu Laugarborg að viðstöddu fjölmenni. Alls bárust ráðinu 75 umsóknir um rúmar 60 milljónir. 49 verkefni hlutu styrk að upphæð rúmar 20 milljónir króna. Ávörp fluttu Helga Haraldsdóttir skrifstofustjóri ferðamála í iðnaðarráðuneyti og Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður menningarráðs. Flutt voru tónlistaratriði af styrkþegum sem og danssýning frá Vefaranum. Að þessu sinni féll hæsti styrkur ráðsins í skaut tónlistarhátíðarinnar Akureyri International Music Festival (AIM) Að hátíðinni stendur áhugahópur um fjölbreyttan og lifandi tónlistarflutning. 
Menningarráð Eyþings vonar að styrkir þessir verði menningar- og listalífi á svæðinu hvatning til áframhaldandi góðra verka.
Fjögur verkefni úr Dalvíkurbyggð fengu styrk. Dalvíkurbyggð fékk styrk fyrir verkefninu Ljósmyndasamkeppni í tilefni 10 ára afmælis Dalvíkurbyggðar. Byggðasafnið Hvoll fékk styrk fyrir sumardagskrá Byggðarsafns Dalvíkurbyggðar. Dansfélagið Vefarinn fékk styrk til sýningaferðar. Sigurlaug Stefánsdóttir veitti styrknum viðtöku en hún og Símon Páll Steinsson maður hennar eru í Dansfélaginu. Að lokum fékk Anna Dóra Hermannsdóttir á Klængshóli styrk fyrir verkefninu eyðibýli og grös.
Að auki var úthlutað 700 þúsund krónum til safna í Eyjafirði og Byggðasafnið Hvoll er eitt þeirra.