Uppeldi til ábyrgðar

Dalvíkurbyggð hefur ákveðið að innleiða uppeldisstefnu sem unnið verður eftir í stofnunum sveitarfélagsins er vinna með börnum. Uppeldisstefnan er kennd við Diane Gossen sem starfað hefur í Kanada og kallast Uppeldi til ábyrgðar, uppbygging sjálfsaga.

Uppeldi til ábyrgðar miðar að því að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfstjórn barna og unglinga og þjálfa þau í að ræða um tilfinningar og átta sig á þörfum sínum. Vinnuaðferðunum er einnig ætlað að styðja starfsmenn skóla við að móta sér skýra stefnu varðandi samskipti og agamál. Öðru fremur er um að ræða aðferðir við að kenna sjálfstjórn og sjálfsaga og styrkja einstaklinga í því að læra af mistökum sínum. Hugmyndafræðin hefur áhrif á kennsluhætti, stjórnunarhætti, áherslur í lífsleiknikennslu og ekki síst á meðferð agamála (sjá heimild).

Í vetur mun Grunnskóli Dalvíkurbyggðar hefja innleiðingu uppeldisstefnnar og hafa allir starfsmenn skólans farið á tveggja daga námskeið í umsjón Magna Hjálmarssonar og Sigríðar Ragnarsdóttur og lært hugmyndafræði Uppeldis til ábyrgðar. Þau voru einnig með kynningu fyrir foreldra í Bergi 10. ágúst síðast liðinn. Í framhaldi mun starfsfólk vinna í hópum að innleiðingunni sem taka mun um tvö ár.

Hér eru ýmsar upplýsingar um Uppeldi til ábyrgðar:
http://netla.khi.is/greinar/2007/003/index.htm  
http://sunnuhvoll.com/  
http://www.realrestitution.com/