UNICEF- hreyfingin í Dalvíkurskóla

UNICEF- hreyfingin í Dalvíkurskóla

Dalvíkurskóli hefur undanfarin þrjú vor tekið þátt í söfnun fyrir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Eitt helsta markmið UNICEF á Íslandi er að afla stuðnings til verkefna fyrir börn sem búa við sára neyð. Nemendur Dalvíkurskóla hafa fengið fræðslu um jafnaldra sína í öðrum heimshlutum og í framhaldi af því safnað fé fyrir þurfandi börn um allan heim með því að stunda holla hreyfingu.

Krakkarnir safna áheitum í hópi sinna nánustu, heitið er ákveðinni upphæð fyrir hvern hring sem þau geta hlaupið á íþróttavellinum, á einni klukkustund. Eftir hvern hring fá þau límmiða hjá kennara í svokölluð apakver, að hlaupi loknu fara þau heim með kverið sem sönnun fyrir því hve marga hringi þau hlupu. Síðan innheimta þau áheitin í samræmi við það og koma með peninginn í skólann.

Undirtektir aðstandenda hafa verið aldeilis frábærar. Í vor tóku 1.-8. bekkur þátt í hlaupinu, alls rúmlega 200 krakkar og söfnuðust hvorki meira né minna en 602.438 krónur að þessu sinni.

Fyrir þennan pening er ýmislegt hægt að gera til aðstoðar bágstöddum. Til dæmis væri hægt að

• útvega rúmlega 30 þúsund skammta af bóluefni gegn mænusótt en sá hræðilegi sjúkdómur er enn landlægur á vissum svæðum í Vestur-Afríku og Suður-Asíu.
• kaupa 25 fullbúna skólapakka (svokallaða skóla-í-kassa) sem notaðir eru á hamfara- og neyðarsvæðum. Mikilvægt er að börn, sem hafa upplifað hamfarir eða átök, fái þann stöðugleika og þá sálrænu hjálp og vernd sem skólinn veitir. 25 skólapakkar innihalda námsgögn fyrir allt að 2060 börn.

Gaman er að segja frá því að samanlagt í þau þrjú ár sem Dalvíkurskóli hefur stutt þetta góða málefni, höfum við safnað 1.431.932 krónum.

Fyrir þá upphæð væri til dæmis hægt að útvega sjúkragögn til að nota í neyðarástandi, lyf og lækningabúnað sem gætu gagnast rúmlega 18 þúsund manns, börnum og fjölskyldum þeirra, í allt að þrjá mánuði.

Það munar heldur betur um svona styrk og höfum við fengið send viðurkenningarskjöl í skólann fyrir þennan góða stuðning, ásamt kæru þakklæti frá UNICEF á Íslandi. Ráðgert er að halda þessu góða starfi áfram næsta vor og vonandi tekur allur skólinn þá þátt. Við fáum sendan fána UNICEF til að flagga við skólann, daginn sem hlaupið fer fram.

Með þessu framtaki erum við að vekja börnin okkar til vitundar um það að börn víðsvegar um heiminn lifa við bág kjör, þetta opnar augu þeirra og eykur víðsýni og samkennd, auk þess að styðja við aukna hreyfingu !
Kærar þakkir, foreldrar og aðrir aðstandendur, fyrir góðar mótttökur og þátttöku í þessari söfnun.

Guðný S. Ólafsdóttir.