Ungt skíðafólk á ferð og flugi

Ungt skíðafólk úr Skíðafélagi Dalvíkur tóku um helgina þátt í Ingemartrofén í Tärnaby í Svíþjóð en það er alþjóðlegt skíðamót barna og unglinga og ber nafn Ingimars Stenmarks sem er fæddur í Tärnaby eins og Anja Person og fleiri frægir skíðamenn.

Bestum árangri okkar fólks náði Jakob Helgi Bjarnason í stórsvigi en þar varð hann í 3. sæti. Hann féll úr leik í seinni ferð í svigi en hann var þá með besta tíma eftir fyrir ferð.
Eydís Arna Hilmarsdóttir varð í 12. sæti í stórsvigi í sínum aldursflokki og Andrea Björk Birkisdóttir í 18. sæti. Eydís varð síðan í 9. sæti í svigi. Alexía María Gestsdóttir úr Ólafsfirði varð einnig í 9. sæti í svigi í sínum aldursflokki.

Jakob Helgi varð í 3. sæti í samhliðasvigi og Eydís Arna í 4. sæti í sömu grein.

Krakkarnir voru því að gera fína ferð og náðu góðum árangri en á þessu móti keppa margir gríðarlega sterkir skíðamenn og konur alls staðar að úr heiminum.
Rúmlega 20 manns voru frá Íslandi í Tärnaby sl. viku við æfingar og keppni. Eldgosið í Eyjafjallajökli setti strik í ferðaáætlanir eins og hjá öðrum ferðalöngum í Evrópu síðustu daga. Þar sem ekki var flogið frá Stokkhólmi var brugðið á það ráð að aka til Þrándheims í Noregi en það eru um 460 km leið og þaðan eru börnin að fljúga heim fyrir hádegi nú á mánudagsmorgni. Í þessum hóp eru margir líklegir til afreka á Andrésarleikum sem hefjast á miðvikudaginn þannig að það er eins gott að þau komist heim á réttum tíma!