Umferðaröryggi skólabarna við upphaf skólaárs

Þessa daganna eru grunnskólar landsins settir og því fylgir tilheyrandi umferð barna og foreldra, gangandi sem akandi. Í ár eru rúmlega 4100 börn að hefja sína skólagöngu og því að fara í fyrsta skipti út í umferðina á leið til skóla. 

Umferðarstofa hefur sent út bækling til foreldra/forráðamanna allra 6 ára barna. Í bæklingnum er að finna ýmsar góðar leiðbeiningar varðandi hvernig best er að undirbúa barnið undir það að ganga sjálft í skólann. Við mælum með að foreldrar/forráðamenn kynni vel fyrir barninu hvaða leið er best að ganga og við leggjum áherslu á að stysta leiðin er ekki alltaf sú öruggasta. Því miður eru aðstæður víða þannig að ekki er óhætt að láta börn ganga ein í skóla fyrstu árin. Í sumum eldri hverfum eru götur með 50 km hámarkshraða sem liggja í miðjum skólahverfum. Víðast er þó búið að koma upp gangbrautarljósum við þessar götur. Við megum samt ekki ofmeta getu barnsins. Þegar börn eru keyrð í skóla er mjög mikilvægt að þau fari út úr bílnum þar sem þau eru örugg. Við stofnum lífi okkar barna og annarra í hættu með því að sleppa þeim út við gangstéttarbrún. Notum frekar sérstök stæði eða útskot sem er að finna við flesta skóla. Það er líka mikilvægt að muna að barn sem er að hefja skólagöngu er ekki orðið nógu hávaxið til að sitja eingöngu með bílbelti og því er nauðsynlegt að nota bílpúða eða bílpúða með baki.

10 örugg ráð:

1. Æfum leiðina í og úr skóla með barninu
2. Veljum öruggustu leiðina í skólann – ekki stystu
3. Leggjum tímanlega af stað, flýtum okkur ekki
4. Setjum einfaldar og fáar reglur sem barnið á að fara eftir
5. Kennum barninu að fara yfir götu, með og án ljósastýringar
6. Verum sýnileg, notum endurskinsmerki
7. Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir
8. Notum viðeigandi öryggisbúnað í bifreið, bæði börn og fullorðnir
9. Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla
10. Förum eftir leiðbeiningum skólans um umferð á skólasvæðinu. Höfum í huga að við erum fyrirmyndir barnsins.
Hvernig hegðum við okkur í umferðinni? Barnið lærir meira af því sem við gerum en því sem við segjum. Munum því að ganga aldrei á móti rauðu ljósi og nota alltaf viðeigandi öryggisbúnað, t.d. öryggisbelti, hjólreiðahjálma og endurskinsmerki.