Um jarðfræði og jarðhita á norðanverðum Tröllaskaga

Næstkomandi laugardag, 6. nóvember, efnir Framfarafélag Dalvíkurbyggðar til fræðslufundar um jarðfræði og jarðhita á norðanverðum Tröllaskaga. Fundurinn hefst kl. 13 30 að Rimum í Svarfaðardal.

Framsögumenn verða 5 og af þeim koma 4 frá ÍSOR, Íslenskum orkurannsóknum, og einn frá Veðurstofu Íslands.

Kristján Sæmundsson, ÍSOR, flytur erindi um jarðhita við vestanverðan Eyjafjörð. Kristján er einn reyndasti jarðfræðingur þjóðarinnar, og meðal annars unnið mikið við leit að nýtanlegum jarðhita.

Árni Hjartarson, starfsmaður ÍSOR, mun fjalla um  sögu jarðmyndana í Svarfaðardal og á Tröllaskaga. Árni hefur nýlega lokið við mikið verk um sögu jarðmyndana í Skagafirði og dregið af  þeirri sögu nýstárlegar ályktanir um jarðplötuhreyfingar á Íslandi.

Ragnar Stefánsson, Veðurstofu Íslands, flytur erindi sem nefnist: Jarðskjálftavirkni og jarðhiti á Tröllaskaga.

Bjarni Gautason, starfsmaður Akureyrarútibús ÍSOR,  flytur erindi um starfsemi Íslenskra Orkurannsókna á Akureyri. Meðal verkefna hans er vinna við jarðhitaleit og rannsókn á hveramyndunum á botni Eyjafjarðar.

Ragnar Ásmundsson, ÍSOR á Akureyri, fjallar um reynslu af varmadælum á Íslandi.

Sveinn Jónsson bóndi í Kálfskinni verður fundarstjóri og mun hvetja til fyrirspurna og frjálsra umræðna að loknum framsöguerindunum. Kaffi verður á boðstólum til að liðka málbeinið.

Að virkja jarðvarma á svæðinu.

Mikil umræða hefur verið í byggðarlaginu um jarðhitamál. Menn eru almennt sammála um að aukin nýing jarðhita sé mikilvæg til að efla byggðina. Hvað vitum við um jarðfræði svæðisins? Hvernig getum við aukið við þá þekkingu? Eru nýtanleg jarðhitasvæði hér fleiri en þau sem við nýtum núna? Á fundinum verður reynt að svara slíkum spurningum og mörgum fleiri.

Fundurinn er öllum opinn,  kl. 13 30 á laugardag, að Rimum í Svarfaðardal.