Tungurétt vígð í blíðskaparveðri

Tungurétt vígð í blíðskaparveðri

Síðastliðinn sunnudag var réttardagur í Svarfaðardal og við það tilefni fór fram vígsla á Tungurétt en hún hefur verið í mikilli endurgerð síðustu vikur. Veðrið á vígsludaginn var eins og best verður á kosið, hlýtt og sólríkt, og fjöldi manns lagði leið sína í Tungurétt. 

Sylvía Ósk Ómarsdóttir, fjallskilastjóri, stýrði dagskránni og sagði nokkur orð um sögu réttarinnar. Magnús G. Gunnarsson, sóknarprestur blessaði réttina og að lokum sungu gangnamenn úr Gangnamannafélagi Sveinsstaðarafréttar með Þórarinn Hjartason í farabroddi brag sem saminn var sérstaklega af þessu tilefni.

Í ræðu Sylvíu kom fram að réttin var byggð árið 1923 og er því 91 árs núna í haust. Réttin var steypt ofaná á melinn, þar sem hún stendur í dag, án járnabindingar í steypunni og því í raun ótrúlegt að hún hafi ekki verið verr farin en raun bar vitni. Endurbygging réttarinnar fór fram í tveimur áföngum. Sá fyrri 2011 þegar almenningurinn var lagaður, steypt utanum gömlu veggina og ný hlið sett í dilkana. Kapp var lagt í það að eitthvað sæist af vinnu forfeðranna við þá endurbyggingu og því má sjá gömlu veggi réttarinnar inn í dilkunum. Nú í sumar var svo ráðist í að klára uppbygginguna. Þá voru gömlu dilkarnir jafnaðir við jörðu og nýjir steyptir upp. Einnig var undirlag dilka og almennings lagað.