Tröllaskagi 2010 - Gönguvika, 1. göngudagur

Fyrsti göngudagur gönguvikunnar í ár er á morgun, laugardaginn 26. júní. Gönguvikan stendur yfir dagana 25. júní - 4. júlí. Á hverjum degi verða farnar tvær ferðir, sú fyrri er alltaf kl. 10:00 og er miðuð við göngufólk sem vill takast á við nokkuð krefjandi leiðir og seinni gangan er ýmist kl. 130:0 eða 16:00 og eru á færi flestra og fjölskylduvænar.

Mæting er í ferðir samkvæmt auglýstri dagskrá, ekki er nauðsynlegt að skrá sig fyrirfram í ferðirnar. Vinsamlegast mætið tímanlega fyrir brottför ( a.m.k. 15 mín. fyrr ) til þess að ganga frá skráningu og greiðslu í upphafi ferðar. Athugið að aðeins er tekið við reiðufé, ekki verður hægt að greiða með greiðslukortum.

Boðið verður uppá tvær spennandi gönguferðir á morgun:


Gengið kringum Hnjótafjall

Leiðsögumaður: Kristján Eldjárn Hjartarson

Farið frá Kotabrúnni neðan við Atlastaði í Svarfaðardal kl. 10:00 og gengið fram Neðri-Hnjóta að Kambagili, upp Möngubrekku og upp að Stóruvörðu efst á Heljardalsheiðinni. Þá er sveigt til vinstri með Vörðufjalli að fjallinu Deili, fyrir botn Deildardals og áfram eftir Hákömbum fyrir botn Unadals allt þar til botn Skallárdals blasir við. Skokkað niður Unadalsjökul Skallárdalsmegin og gengið niður Skallárdal að Atlastöðum. ( 8 til 9 tíma gangur og 850 m hækkun, 3skór)


Gamli Múlavegur

Leiðsögumaður: Anna Dóra Hermannsdóttir

Lagt er upp klukkan 23:00, gangandi skammt þar frá sem vegurinn liggur inn í fjallið, og gamli vegurinn genginn upp á svokallað Plan efst í Múlanum. Þarna er fallegur útsýnisstaður og ef heppnin er með í för þá sjáum við miðnætursólina. Hægt er að velja að fylgja veginum áfram inn Ólafsfjörð, um Ófærugjá og allt að gangnamunnanum Ólafsfjarðarmegin, en við veljum að fara sömu leið og við komum til baka. Ólafsfjarðarvegur var lagður um Múlann og formlega opnaður 17. sept. 1966. en lagður af þegar Múlagöngin voru opnuð 1991. Múlavegurinn er nú skemmtileg gönguleið. Nokkur eyðibýli og fleiri sögulegar minjar eru í Múlanum, sumar allfrægar, því “hér mundi gengt í fjöllin”. ( 2 til 3 tíma gangur og 100 m hækkun, 1 skór)