Tónar eiga töframál - Dagur leikskólans

Dagur leikskólans er 6. febrúar ár hvert en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín og halda því í ár upp á 60 ára afmæli sitt jafnframt. Félag leikskólakennara í samstarfi við menntamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli hrundu verkefninu af stað árið 2008 og haldið hefur verið upp á daginn síðan og með því stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og kynningu þess út á við.

 En þar sem daginn ber upp á laugardag í ár munu leikskólar halda hann hátíðlegan í dag föstudaginn 5. febrúar og hafa um það frjálsar hendur hvernig þeir gera sér dagamun í tilefni dagsins. Í Dalvíkurbyggð verður haldið upp á daginn með því að kynna tónlistarverkefnið Tónar eiga töframál, en það er samstarfsverkefnið leikskóla sveitarfélagsins og Tónlistarskólans. Krílakot og Kátakot kynna verkefnið kl. 10:00 í Bergi menningahúsi og Leikbær þann sama dag kl. 11:00 í Félagsheimilinu Árskógi.

Kaldo Kiis skólastjóri Tónlistarskólans stjórnar uppákomunni, en leikskólabörn fædd 2004, 2005 og 2006 flytja nokkur lög ásamt Þuríði Sigurðardóttur leikskólakennara.

Allir þeir sem áhuga hafa eru velkomnir, jafnt foreldrar, afar og ömmur sem og aðrir bæjarbúar.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um verkefnið á heimasíðu Krílakots og heimasíðu Tónlistarskólans.