Töfraheimar stærðfræðinnar

Töfraheimar stærðfræðinnar
Töfraheimur stærðfræðinnar
Ég vek athygli á að nú eru glærurnar frá fræðslufundinum sem ég var með í lok október um stærðfræðinám ungra barna komnar á sinn stað á heimasíðunni. Einnig er hægt að komast inn á þær hér. Leikskólastjóri hefur auk þess áður sent foreldrum þær í pósti.
     Starfsfólk leikskólans er stöðugt með augun opin fyrir að tengja stærðfræðina inn í daglegt starf meðal annars í gönguferðum, í söngvum og tengda við leikskólalæsi. Eftir áramótin verður markvisst unnið með stærðfræðigögn sem bera heitið Numicon. Þegar þar að kemur hvet ég foreldra til að kynna sér hvernig unnið verður með börnunum með þau gögn.
     Jólin sem í hönd fara eru góður tími fyrir gæðastundir heima yfir spilum með börnunum. Ég minni því á lýsingar á nokkrum einföldum spilum sem er að finna undir tengli þróunarverkefnisins og á hin ýmsu teningaspil. Endilega grípið tækifærin sem bjóðst í daglega lífinu til að spá og spegúlera með börnunum ykkar í tölum, talningu, fjölda, röðun, formum og hverju öðru sem ykkur dettur í hug. Sem dæmi má nefna að núna gefa jólasveinarnir gott tækifæri til að hugsa um raðtölurnar (fyrsti, annar, þriðji o.s.frv.), hvað margir eru komnir og hvað margir eiga þá eftir að koma. Einnig gefur jólabaksturinn tilefni til að tala um fjölda, þyngd, mínútur, hitastig o.fl. Jólalögin vísa mörg hver til ákveðins fjölda, s.s. Adam átti syni sjö og Jólasveinar einn og átta að ógleymdum jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum.
Ég óska öllum notalegrar aðvetnu og góðrar skemmtunar yfir stærðfræðipælingum!
Dóróþea Reimarsdóttir, verkefnisstjóri