Leiðrétt: Tilkynning frá Íþróttamiðstöð Dalvíkurbyggðar
Kæru korthafar í líkamsrækt Íþróttamiðstöð Dalvíkurbyggðar. Mér þykir leitt að tilkynna að í vetur munum við ekki geta boðið upp á opna tíma á vegum íþróttamiðstöðvar vegna samkeppnissjónarmiða.
Ekki þykir forsvaranlegt í ljósi ákvæða og túlkunar samkeppnislaga að við bjóðum áfram upp á tíma þar sem laun þjálfara og aðstaða eru greidd af sveitarfélaginu.
Túlkun samkeppniseftirlitsins má lesa hér:
https://www.samkeppni.is/malefni/samkeppni-og-hid-opinbera/ithrotta-og-sundstadir-heilbrigdisthjonusta-sorphirda/
Ég geri mér grein fyrir að þessir tímar hafa notið mikilla vinsælda og verið órjúfanlegur hlutur í hreyfingu margra íbúa í sveitarfélaginu. Mín von er að tímarnir geti þó áfram verið í boði en þá í gegnum þriðja aðila, líkt og gerð var tilraun með sl. vetur að einhverju leyti. Sú vinna er þegar hafin og er ég afar bjartsýnn á að svo verði.
Ég hins vegar hvet áhugasama eindregið til þess að hafa samband við undirritaðan ef þeir vilja vera með íþróttatíma í litla salnum. Í þessu geta falist skemmtileg og áhugaverð tækifæri og vonandi verður þetta til þess hreinlega að efla framboðið af hreyfingu hér í sveitafélaginu!
Það skal tekið skýrt fram hér að ekki er um breytingar á gjaldskrá að ræða eða gildissviði korta í stærri líkamsræktarsalinn (tækjasalinn) og sundlaug. Enda falla þeir ekki undir samkeppnissjónarmiðin.
Með íþróttakveðju,
Jón Stefán Jónsson, Íþróttafulltrúi og forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar Dalvíkurbyggðar.