Tilkynning frá Hitaveitu Dalvíkur

Spurningar hafa vaknað hjá viðskiptavinum hitaveitunnar vegna uppgjörsreikninga sem gerðir voru nú um áramótin. Undanfarið hefur verið unnið að lögbundnum mælaskiptum, þar sem lögð hefur verið áhersla að ljúka þeim fyrst hjá þeim viðskiptavinum sem eru með elstu mæla veitunnar. Upp eru settir mælar sem geta gefið fleiri upplýsingar en magn og má þar nefna: orku í kWh, magn í m3, innhita vatns, úthita vatns og notkun í l/klst. Að auki er hægt að lesa af þeim á þægilegan hátt með fjaraflestri. Þessa möguleika er ætlunin að nota síðar til þess að hafa útsenda reikninga sem allra réttasta.

Stærsti hluti þess magns af heitu vatni sem viðskiptavinir nota fer til upphitunar húsnæðis. Það sem hefur mest áhrif á innihita húsnæðis er veðurfar og þar af leiðandi á þá rúmmetra af heitu vatni sem notaðir eru á hverju ári til upphitunar. Tíðafar á undangengnu ári hefur verið frekar óhagstætt og hefur haft áhrif á að notkun á heitu vatni er meiri en í venjulegu árferði. Vegna þess að aflestur er einungis gerður einu sinni á ári geta átt sér stað töluverðar sveiflur í notkun á heitu vatni. Þessar sveiflur geta verið í báðar áttir þ.e. að bæði getur verið um að ræða inneign eða skuld eins og dæmin sanna.

Einnig er rétt að geta þess að umrædd mælaskipti eru framkvæmd til þess að tryggja að „rétt sé mælt“. Það er nær óþekkt að „gömlu“ mælarnir mæli meira, frekar má búast við að mælaverkið í þeim slitni og mæli því minna. Aflað var upplýsinga hjá hitaveitu sem fór í sambærileg mælaskipti og hér á sér stað. Þar fór svipuð umræða af stað og hér í Dalvíkurbyggð vegna þess að mæld notkun jókst á viðskiptavinum þeirrar hitaveitu, að meðaltali var aukningin á vatnssölu um 12%. Til þess að átta sig betur á þessu hefur Hitaveita Dalvíkur sent notaða mæla til skoðunar, hjá löggiltum aðila, og verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verður og mun hún verða kynnt.

Við framangreinda reikningagerð kom upp ákveðinn vandi þar sem fleiri en einn notandi er að nota sama mælinn. Unnið er að lagfæringu á þeim reikningum. Ég vil biðja þá viðskiptavini sem þannig háttar hjá að hafa samband en þessir reikningar eiga að hafa verið bakfærðir.


Þorsteinn Björnsson
Veitustjóri