Tilbury fagnar upptökulokum með tónleikaröð á Norðurlandi

Það sem liðið er af þessu sumri hefur hljómsveitin Tilbury skýlt sér í skugga hljóðversins og unnið hörðum við upptökur á sinni annarri breiðskífu.Í tilefni af upptökulokum mun hljómsveitin loks stíga út í sumarið og halda norður á land til að spila þrenna tónleika og tónlistarmaðurinn góðkunni Snorri Helgason ætlar að slást með í för.

 Ferðinni er haldið á Græna hattinn á Akureyri, svo á tónlistarhátíðina Gæruna á Sauðárkróki, en fyrstu tónleikarnir fara fram í félagsheimilinu Rimum í Svarfaðardal.

Tilbury mun að sjálfsögðu nota tækifærið og prufukeyra nýju lögin í bland við lög á fyrri plötu sveitarinnar, Exorcise, sem kom út í fyrra.

 Tilbury hefur lítið spilað undanfarið og er sveitin því mjög spennt fyrir ferðalaginu. Það á ekki síst við tónleikana í Svarfaðardal, en dalurinn hýsir einmitt ættaróðal tveggja meðlimanna.

 Nýja plata Tilbury, sem hefur enn ekki hlotið nafn, er væntanleg í október en fyrsta lag plötunnar verður sent út um miðjan þennan mánuð.



Norðurferð Tilbury og Snorra Helga

•

• Rimar, Dalvíkurbyggð – fimmtudagurinn 15. ágúst

•

• Græni hatturinn, Akureyri – föstudagurinn 16. ágúst

•

• Tónlistarhátíðin Gæran, Sauðárkróki – laugardagurinn 17 ágúst