Þriðja upplýsingabréf sveitarstjóra

Þriðja upplýsingabréf sveitarstjóra

Kæru íbúar Dalvíkurbyggðar.

Í lok þessarar vinnuviku tek ég saman nokkra punkta sem snúa að málefnum líðandi stundar. Þar er efst á baugi kórónu veiran og áhrif hennar á íbúa og fyrirtæki. 

Áhrifin eru gríðarleg þó smit hafi enn ekki greinst í byggðarlaginu því við þurfum að aðlaga okkur að öllum þeim takmörkunum sem eru í gildi og sýna samfélagsábyrgð í baráttunni við þennan óvin.

Byggðaráð fundaði á fimmtudag og samþykkti tillögur að afsláttum af gjöldum í leikskóla, grunnskóla og frístund. Útgangspunkturinn er að ekki sé rukkað fyrir þjónustu sem ekki er veitt. Þessar tillögur fara fyrir sveitarstjórn á þriðjudag. Þá verður haldinn aukafundur sveitarstjórnar m.a. til að staðfesta heimild nefnda og ráða til fjarfunda á meðan neyðarástandið varir. Á þeim fundi verður einnig til umræðu hvaða aðgerðir fleiri verða nauðsynlegar til að bregðast við ástandinu. T.d. er verið að  skoða hvernig er hægt að breyta framkvæmdaáætlun ársins til að framkvæmdafé nýtist sem best fyrir atvinnulíf sveitarfélagsins. Einnig er beðið eftir ráðleggingum Sambands ísl. sveitarfélaga um frestun gjalda fyrir fyrirtæki o.fl.

Almannavarnir hafa gefið út eindregin tilmæli til sveitarfélaga að halda uppi skólahaldi í leik- og grunnskólum og höfum við farið eftir þeim tilmælum eins og hægt er. Þjónustan er skert að nokkru leyti en allir eru að gera sitt besta til að framfylgja reglum um fjöldatakmarkanir og fjarlægð á milli einstaklinga. Almennt er hljóðið gott í starfsfólki sveitarfélagsins þótt margir séu undir miklu álagi.

Í dag kallaði ég eftir því að stærri fyrirtækin í Dalvíkurbyggð sendu inn upplýsingar um stöðu sína á þessum erfiðu tímum. Ljóst er að áskoranirnar eru gríðarlegar og það verður erfitt víða að halda sjó, sérstaklega í ferðaþjónustunni. Því vil ég taka undir með þeim sem hafa hvatt íbúa til að nýta sér þá þjónustu sem þó er ennþá í boði hjá fyrirtækjum. Við getum hjálpað til með því að versla í heimabyggð. Nokkur fyrirtæki bjóða upp á heimsendingu á mat og vörum. Verum dugleg að nýta þessa þjónustu, styðjum eins og okkur er unnt. Því hvert fyrirtæki og hvert starf er afar dýrmætt samfélaginu í heild.

Síðustu daga hafa almannavarnir hamrað á því hversu alvarlegt ástandið er og hversu mikilvægt er að allir sýni ábyrga hegðun og fari eftir settum reglum. Ég tek undir allar aðvaranir í þessa átt. Áminning mín frá síðustu viku á ennþá við. Takmörkum öll ferðalög og allan samgang á milli byggðarlaga. Takmörkum heimsóknir utan að komandi en nýtum frekar símann og samfélagsmiðla til samskipta. Þetta er MJÖG mikilvægt.

Einnig vil ég biðla til ungmenna okkar að virða fjarlægðarmörkin og samkomubannið. Nú þegar flestir eru komnir heim úr mennta- og háskólunum. Ég skil vel að löngun til hittinga og mannamóta er rík en höfum hemil á okkur á meðan þetta ástand varir.

Með bestu kveðjum.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.