Þjónustustefna Dalvíkurbyggðar

Á síðasta fundi sveitarstjórnar var endanlega samþykkt þjónstustefna fyrir Dalvíkurbyggð en unnið hefur verið að henni um nokkurt skeið. Markmið stefnunnar er að tryggja þjónustu sveitarfélagsins faglega umgjörð auk þess að veita starfsmönnum stuðning í sínum dags daglegu störfum.


Þjónustustefnan er hluti af stærra verkefni um Ímynd Dalvíkurbyggðar en þar er ímynd sveitarfélagsins skoðuð út frá þremur þáttum; starfsmönnum, þjónustu og samfélaginu sjálfu. Sami stýrihópurinn hefur unnið að verkefninu um ímynd Dalvíkurbyggðar frá upphafi en fengið til liðs við sig hópa starfsmanna og íbúa til að vinna í ákveðnum þáttum þess.


Í október 2014 var haldinn sameiginlegur starfsmannadagur allra starfsmanna Dalvíkurbyggðar undir yfirskriftinni Við sem veitum þjónustu. Þar unnu starfsmenn í hópum og svöruðu þremur spurningum sem snéru að þjónustunni; Hvað gerum við vel og hverju viljum við halda? Hvað viljum við bæta og hvað viljum við jafnvel hætta að gera? Hvað viljum við að einkenni framúrskarandi þjónustu? Niðurstöður þessa starfsmannadags voru svo nýttar sem grunnur að gerð þjónustustefnu.

Við gerð þjónustustefnunnar var stýrihópur verkefnisins um Ímynd Dalvíkurbyggðar stækkaður og fulltrúum frá hverri starfsstöð hjá Dalvíkurbyggð boðin þátttaka. Þannig var tryggt að sjónarmið sem flestra kæmu fram í stefnunni en starfsstöðvar sveitarfélagsins eru margar og veita ólíka þjónustu.


Einkennisorð stefnunnar: Fagmennska
Grunnþátturinn: Traust/áreiðanleiki/trúnaður
Gildin: Virðing, jákvæðni, metnaður


Næstu skref í ferlinu eru að innleiða stefnuna á starfsstöðvum sveitarfélagsins en til að styðja við það ferli verður starfsmönnum og stjórnendum boðið upp á þjónustunámskeið auk þess sem veittur verður stuðningur við innleiðingu stefnunnar innan hverrar starfsstöðvar.


Þjónustustefna Dalvíkurbyggðar