Hvað breytist 4. maí? -TAKMARKANIR á starfssemi stofnana Dalvíkurbyggðar vegna COVID-19

Hvað breytist 4. maí? -TAKMARKANIR á starfssemi stofnana Dalvíkurbyggðar vegna COVID-19

Hér munum við uppfæra allar upplýsingar tengdar Covid-19 veirunni og allar takmarkanir sem kunna að verða á starfssemi stofnana Dalvíkurbyggðar vegna hennar. Hér má einnig finna viðbragðsáætlun Dalvíkurbyggðar.

Í byrjun má hér finna leiðbeiningar vegna COVID-19 og mjög mikilvægt að halda áfram að tileinka sér þær. Þá hefur embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri og Almannavarnardeild opnað nýjan vef https://www.covid.is// - vegna Covid-19 kórónuveirunnar þar sem finna má góð ráð og allar tölulegar upplýsingar.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur tímabundið í fjórar vikur frá og með næsta mánudegi, 15. mars, til að hægja á útbreiðslu COVID-19. Þar er átt við viðburði þar sem fleiri en hundrað manns koma saman og ná takmarkanirnar til landsins alls. Auk þess þarf að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum á öllum viðburðum. Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar.

Í leik- og grunnskólum verður sett á hámark á fjölda nemenda í kennslu í sömu stofu og tryggt að nemendur séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og mögulegt er. 

Dalvíkurskóli:
Frá og með 4. maí verður skólahald í grunnskólum með hefðbundnum hætti. Nemendur mæta samkvæmt stundaskrá. Þá hefjast aftur skólaíþróttir og sund ásamt verkgreinum. Áfram verður gætt að þrifum í skólanum og áhersla lögð á smitvarnir, sérstaklega handþvott og sprittun. Áfram er mælst til þess að nemendur sem eru með hita eða einkenni sem svipar til einkenna kórónaveirunnar COVID-19 mæti ekki í skólann á meðan neyðarstig almannavarna er í gildi. Helstu einkenni eru: Hiti, hósti, þreyta, vöðva-, bein-, eða höfuðverkur. Ef slíkra einkenna verður vart í skólanum fer nemandi heim. Áfram verða takmarkanir á komu annarra en nemenda og starfsmanna í skólann.

Frístund verður frá og með 4. maí með hefðbundnu sniði. 

Krílakot
Mánudaginn 4. maí verður leikskólinn opinn fyrir alla. Einu takmarkanir eru milli fullorðna. Við viljum því biðja alla um að skoða vel áður en þið komið inn í leikskólann hversu margir eru í fataherbergjunum og passa upp á 2 metra á milli, einn komi með hverju barni inn í leikskólann hvern dag. Síðan megið þið fara með börnin að deildar hurðinni og þar mun starfmaður taka á móti þeim. Ítreka samt að passa að einn fari í einu að deildarhurðum. Minni alla á handþvott og að spritta sig.

Íþróttamiðstöðin 
Íþróttamiðstöðin verður áfram lokuð almenningi eftir 4. maí vegna takmarkana með samkomubanni. Frá og með 4. maí verða kenndar skólaíþróttir (þar með talið sund). Einnig munu sundæfingar sundfélagsins hefjast að nýju. 

Tónlistarskólinn:
Skólastarf hefst að nýju í tónlistarskólanum,mánudaginn 4. maí samkvæmt stundaskrá fyrir fjarkennslu.
Zsuzsanna og Rod mun kenna áfram í fjarkennslu vegna sérstakra aðstæðna sem þau eru í, en aðrir kennarar fara á sína hefðbundnu starfsstöðvar.
Einnig munu tónfræði, samspil sem og aðrar hópgreinar skólans byrja í næstu viku fyrir 1. – 10. bekk samkvæmt stundaskrá.

Við höfum ákveðið að vera með litla tónleika án foreldra og gesta fyrir þá nemendur sem vilja og streyma þeim út á netið.
Við erum helst að hugsa um grunnskólaaldurinn 1. – 10. bekk á þessa tónleika, en gefum öllum eldri nemendum skólans frí frá tónleikahaldi þetta vorið.

Nemendur og foreldrar þurfa að gefa samþykki fyrir upptökunni, þeir sem vilja ekki upptöku verða síðastir á tónleikum og þá er slökkt á upptöku.
Nemendur og foreldrar láti kennara vita um þá nemendur sem vilja ekki vera á upptökum.

Kennarar hafa samband við sína nemendur og setja upp tónleika fyrir þá sem vilja taka þátt og við höfum eins fáa kennara á tónleikum eins og hægt er.
Skólaslit verða ekki með hefðbundnu sniði eins og hefur verið síðustu árin en foreldrum og nemendum verður sendur samantekt vetrarins ásamt umsögnum nemenda fyrir veturinn 2019 -2020.

Félagsmiðstöðin Týr
Frá og með 4. maí verður félagsmiðstöðvarstarf með hefðbundnum hætti og fyrsta opnun verður mánudaginn 4. maí fyrir nemendur í 8.-10. bekk. 

Berg Menningarhús og Söfnin:
Það verða góðar og bjartar breytingar hjá okkur frá og með 4. Maí en þá megum við opna að nýju – bæði Menningarhúsið Berg og Bókasafn Dalvíkurbyggðar. Við opnum með nánast nákvæmlega sömu formerkjum og við lokuðum – opnunartími verður eins og hann var fyrir allar breytingar 10-17, helstu snertifletir eru þrifnir oft á dag með sápu og spritti, starfsmenn klæðast hönskum og allar bækur eru þrifnar, sprittaðar og settar í sólarhrings “sóttkví” áður en þær geta farið í næsta útlán. Við munum bjóða áfram upp á bókaskutl ef fólk hefur áhuga á því og almennt reyna okkar besta að þjónusta alla eftir þeirra þörfum. Leikföng, litir og perlur  verða áfram fjarlægð úr barnahorni.

Engir viðburðir verða á vegum bókasafnsins né menningarhússins í maí en Guðmundur Ármann Sigurjónsson (garmann) mun setja upp nýja sýningu á málverkum og grafík í Bergi og verður hún opin gestum frá og með 4. maí. Laugardaginn 16. maí kl. 14.00 mun verða lágstemmd opnun þar sem gætt verður sérstaklega að fólksfjölda og 2 metra reglunni.  

Tekin hefur verið ákvörðun um að hefja ljósmyndagreiningu á Héraðsskjalasafninu ekki aftur fyrr en næsta haust.

Byggðasafnið opnar þriðjudaginn 2. Júní og verður opið alla daga í sumar frá 10.00-17.00 og Héraðsskjalasafnið verður opið á sínum hefðbundna tíma: þrið-fim 13.00-16.00. Upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn opnar auk þess 2. Júní og verður opin á sömu tímum og bókasafn í sumar (10.00-17.00 virka daga og 12.00-13.00 laugadaga).

Við getum bókstaflega ekki beðið eftir að taka á móti vinum okkar að nýju og við opnum bókasafnið með fullt af brakandi ferskum og nýjum bókum.

Dalbær - Dvalarheimili aldraðra
Tekin hefur verið sú  ákvörðun að loka Dalbæ fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta frá og með 7. mars þar til annað verður formlega tilkynnt. Er þetta gert að höfðu samráði við sóttvarnayfirvöld eftir að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir vegna COVID-19 veirunnar.
Íbúar heimilisins eru  flestir aldraðir og/eða með undirliggjandi sjúkdóma og því í sérstökum áhættuhópi að veikjast alvarlega af kórónaveirunni.
Allra leiða er leitað til að draga úr hættu á að íbúar  veikist og er lokunin liður í því.
Við sérstakar aðstæður má leita undanþágu hjá deildarstjóra eða hjúkrunarframkvæmdastjóra
Við bendum  fólki einnig á að kynna sér upplýsingar og leiðbeiningar á vef Landlæknisembættisins www.landlaeknir.is um stöðu mála, en þær geta breyst frá degi til dags.
Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að hafa samband við hjúkrunarframkvæmdastjóra, Elísu Rán Ingvarsdóttur, í síma 466-1378/847-0426 eða á elisa@dalbaer.is

Félagsstarf aldraðra og öryrkja
Frá og með 9. mars, verður lokað í félagstarfi aldraðra og öryrkja á Dalbæ.  Sú ákvörðun að loka er tekin í samráði við sóttvarnayfirvöld og er liður í því að hefta útbreiðslu veirunnar.

Heimilisþjónusta
Haft verður samband við alla sem njóta heimilisþjónustu og aðilar upplýstir um fyrirkomulag þjónustunnar.

Búsetuþjónusta fatlaðra
Búsetuþjónusta fatlaðra verður órofin.

Þjónustuver Skrifstofa Dalvíkurbyggðar
Þjónustuver Dalvíkurbyggðar verður frá og með 4. maí opið á milli 10-12. Þess fyrir utan eru íbúar og aðrir viðskiptavinir sem eiga erindi í þjónustuverið hvattir til að hringja í síma 460-4900 frá kl. 10:00-15:00 eða senda tölvupóst á dalvikurbyggd@dalvikurbyggd.is. Starfsfólk ráðhússins mun áfram leggja áherslu á að veita góða þjónustu en við biðjum viðskiptavini um að sýna þolinmæði í ljósi aukins álags. Vakin er athygli á að netfangaskrá starfsmanna er á heimasíðu Dalvíkurbyggðar.

Ef grunur vaknar um veirusmit:
Vegna mikils álags á símanúmerið 1700 þá vilja starfsmenn HSN vekja athygli á að fólk hefur tvo möguleika ef það vaknar grunur um veirusmit:

1.            Hringja í símanúmerið 1700, sem er opið allan sólarhringinn

2.            Hringja í 432-4400 (HSN Dalvík) á milli kl. 8 og 16 virka daga.

Heilsugæslustöðin á Dalvík hefur undirbúið sig vegna þessa.
Við viljum einnig ítreka að fólk sem hefur grun um veirusmit mæti EKKI á heilsugæslustöðina.

Bent er á að Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga, að huga vel að hreinlætisaðgerðum og forðast mannamót að óþörfu. Allar helstu upplýsingar um COVID-19 er að finna á vef Embætti landlæknis hér https://www.landlaeknir.is/ og viljum við benda fólki á að kynna sér upplýsingar og leiðbeiningar um stöðu mála, en þær geta breyst frá degi til dags.