Syðra-Garðshorn í Svarfaðardal ræktunarbú ársins

Fjölmenni var á árlegum haustfundi Hrossaræktarsambands Eyfirðinga og Þingeyinga sem haldinn var í Funaborg, félagsheimili Funamanna í gærkvöldi. Frummælendur voru Elsa Albertsdóttir doktorsnemi við Lbhí, Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur og Þórir Örn Grétarsson frá Sjóvá. Erindin voru fróðleg og skemmtileg og urðu miklar umræður um þau. Á fundinum var svo Syðra-Garðshorn í Svarfaðardal valið ræktunarbú ársins. 

Þar stunda hrossarækt Ingólfur Arnar Kristjánsson og Valgerður Björg Stefánsdóttir. Hrossarækt í Syðra-Garðhorni er ung að árum og ekki stór í sniðum. Á árinu voru sýndar tvær hryssur, sammæðra undan hryssunni Kleopötru Orradóttur frá Nýjabæ. Píla (Adamsdóttir) hlaut í aðaleinkunn 8,50 og efsta sæti í flokki 5v. hryssna á LM 2008 og Snörp 4 vetra (u. Þokka Kýrholti) hlaut í aðaleinkunn 8,01. Meðaleinkunn sýndra hross frá búinu er því 8,26 og meðalaldur 4,5 ár. Frábær árangur hjá Ingólfi og Valgerði.

Þá voru veitt verðlaun fyrir efsta stóðhest og efstu hryssu ræktaða af félagsmanni í HEÞ. Píla frá Syðra-Garðhorni var efst hryssna og hlaut hún fyrir sköpulag 8,29, hæfileika 8,64 og í aðaleinkunn 8,50. Ræktandi Ingólfur Arnar Kristjánsson.

Efstur stóðhesta var Máttur frá Torfunesi. Hann hlaut fyrir sköpulag 8,38, hæfileika 8,62 og í aðaleinkunn 8,52. Ræktandi Baldvin Kr. Baldvinsson.

Sérstaka viðurkenningu hlaut Vilberg Jónsson fyrir að hafa ræktað stóðhestinn Kappa frá Kommu. Kappi var sýndur á Héraðssýningu í Eyjafirði í sumar og sló heimsmet í flokki 4v. stóðhesta. Hann hlaut fyrir sköpulag 8,35, hæfileika 8,47 og í aðaleinkunn 8,42.

Frétt fengin af www.dagur.net