Svarfdælskir nördar á Kaffi Loka

Svarfdælskir nördar á Kaffi Loka

Nokkrir áhugamenn um svarfdælska sögu og fræði hittust sl. föstudag 8. mars (á alþjóðlegum baráttudegi kvenna) á Kaffi Loka í Reykjavík til að ræða stofnun svarfdælsks sögu- og fræðafélags. Á fundinn voru mættir eftirtaldir: Anna Dóra Antonsdóttir, Atli Rúnar Halldórsson, Atli Rafn Kristinsson, Árni Daníel Júlíusson, Árni Hjartarson, Gunnar Stefánsson, Hjörleifur Hjartarson og Þórarinn Eldjárn. Allir þessir aðilar hafa, hver með sínum hætti, fengist við svarfdælskan sagna- og menningararf enda af nógu af taka í þeim efnum. Á fundinum voru reifaðar hugmyndir um stofnun slíks félags, viðfangsefni þess og starfshætti.


Rætt var um verkefni sem slíkt félag gæti beitt sér fyrir, einkum útgáfustarf af ýmsum toga. Mikið „svarfdælskt“ efni liggur óútgefið og jafnvel óskráð á skjalasöfnun. Á landsbókasafninu liggja t.a.m. óútgefin þjóðsagnasöfn Þorsteins Þorsteinssonar og Þorsteins Þorkelssonar og fleiri skjöl sem varða svarfdælska sögu. Einnig ræddu menn eyðibýlaskráningu, örnefnasöfnun, ljósmyndasöfnun, skráningu og starfsemi Héraðsskjalasafnsins á Dalvík, útgáfu ársrits ofl.


Fundarmenn voru sammála um að full þörf væri á stofnun fræðafélags. Slíkur félagskapur, formlegur eða óformlegur, væri í senn umræðu- og samstarfsvettvangur. Hann hvetti til skipulagðrar rannsóknarstarfsemi og útgáfu og auðveldaði aðgengi að fjármagni til slíks.


Sambærileg fræða- og sögufélög eru rekin víða um land með blómlegri starfsemi. Má þar nefna Sögufélags Skagfirðinga sem lætur víða til sín taka við rannsóknir á skagfirskri sögu og stendur að einstaklega metnaðarfullri byggðasöguútgáfu.

Í framhaldinu er fyrirhugað að boða til annars fundar um stofnun sögufélags svarfdæla að Húsabakka í Svarfaðardal sunnudaginn 24. mars nk. - á svarfdælskum marsi.