,,Svarfaðardalur í Vesturheimi", sagnaþing á Húsabakka

Framfarafélag Dalvíkurbyggðar  stendur fyrir sagnaþingi í félagsheimilinu Rimum við Húsabakkaskóla fimmtudaginn 7.júlí, kl 20 30. Þar mun Haraldur Bessason flytja erindi sem kallast ,,Svarfaðardalur í Vesturheimi" en það fjallar um fólk sem fór til Vesturheims en tengdist Svarfaðardal. 

Haraldur Bessason var fyrsti rektor Háskólans á Akureyri, en býr nú í Tórontó í Kanada. Hann var um langt skeið prófessor við Manítóbaháskóla í Kanada, nálægt Íslendingabyggðum þar vestra. Haraldur er þekktur fyrir frásagnarsnilld sína og skemmtilegheit ekki síður en fyrir fræðimennsku. Hann vill taka það skýrt fram að erindi hans felst fyrst og fremst í frásögnum en verður ekki fræðilegs eðlis. Haraldur og kona hans Margrét Björgvinsdóttir búa þessar vikurnar í Húsabakkaskóla í Svarfaðardal.

Eftir erindið er gert ráð fyrir góðum tíma í umræður og spjall. Að því loknu verður kaffihlé en þegar því líkur munu Íris Sigurjónsdóttir og Hjörleifur Hjartarson, í Laugasteini, syngja nokkur lög.