Svæði fyrir lausa hunda

Svæði fyrir lausa hunda

Nú á dögunum fengu Svanfríður bæjarstjóri og Margrét upplýsingafulltrúi nemendur leikskólans Krílakots í heimsókn. Þau hafa undanfarið farið í stuttar ferðir til að skoða og kynna sér kóngulær. Meðal annars hafa þau nýtt sér svæðið upp í fjalli, beint fyrir ofan Krílakot og farið upp með afleggjaranum þar upp í fjall. Í leit sinni að kóngulóm á þessari leið hafa þau því miður fundið ýmislegt annað sem ekki á heima þar svo sem mikið af hundaskít og sígarettustubba. Þessu ákváðu börnin að kvarta yfir og afhentu því bæjarstjóranum og upplýsingafulltrúanum kvörtunarbréf með myndum af sönnunargögnunum, samtals 46 myndir.

Samkvæmt aðalskipulagi er svæðið fyrir ofan Krílakot og kirkjuna ekki skilgreint sem svæði fyrir lausa hunda. Þar má því ekki fara með hunda til að sleppa þeim lausum og láta þá hlaupa um. Auk þess eiga hundaeigendur ávalt að hirða upp skítinn eftir hunda sína. Svæði fyrir lausa hunda hefur hins vegar verið skilgreint fyrir norðan og ofan við Upsakirkjugarð. Mynd af því svæði má sjá hérna.

Hundaeigendur eru vinsamlegast beðnir að virða þessi mörk.